Fótbolti

Wilkins tekur við Jórdaníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ray Wilkins var aðstoðarþjálfari hjá Fulham hluta af síðustu leiktíð.
Ray Wilkins var aðstoðarþjálfari hjá Fulham hluta af síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Ray Wilkins hefur verið ráðinn þjálfari Jórdaníu, sem situr í 56. sæti styrkleikalista FIFA. Wilkins, sem lék m.a. með Chelsea, Manchester United, AC Milan og QPR á ferlinum, mun njóta aðstoðar Franks Stapleton, fyrrverandi framherja Arsenal og Manchester United.

Jórdanía mætir Úsbekistan í vináttulandsleik í dag og Kína í öðrum vináttuleik á þriðjudaginn. Wilkins tekur við liðinu eftir þessa leiki, en fyrsti leikur Jórdaníu undir stjórn hans verður gegn Malasíu í Kuala Lumpur 11. október.

Wilkins mun svo stýra Jórdaníu í Asíukeppninni sem fer fram í Ástralíu í janúar á næsta ári. Jórdanir eru þar í riðli með Japan, Írak og Palestínu. Wilkins hefur þó sagt að gott gengi í Asíukeppninni gæti fengið hann til að stýra jórdanska liðinu í undankeppni HM 2018.

Prins Ali Bin al-Hussein - sonur Houssein, konungs Jórdaníu á árunum 1952-1999, og Aliu drottningar, þriðju konu hans - hafði frumkvæði að ráðningu Wilkins, en hann er forseti jórdanska knattspyrnusambandsins. Prins Ali er einn valdamesti maðurinn í asískum fótbolta, en hann er auk þess einn af sjö varaforsetum FIFA.

Jórdanía hefur aldrei komist á HM, en liðið tapaði fyrir Úrúgvæ í umspili um sæti á HM í Brasilíu haustið 2013.

Prins Ali er háttsettur innan FIFA.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×