Innlent

Myndir: Mannelskur kópur gleður íbúa og ferðamenn í Ólafsvík

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kópurinn liggur í mestu makindum í höfninni við Ólafsvík
Kópurinn liggur í mestu makindum í höfninni við Ólafsvík Myndir/Þröstur Albertsson
„Ég hugsa að hann eigi eftir að vera þarna áfram. Honum líður vel þarna,“ segir Þröstur Albertsson, íbúi og ljósmyndari í Ólafsvík, en í höfn bæjarins hefur gullfallegur kópur vanið komur sínar. „Við urðum fyrst varir við hann um miðjan ágúst en svo hvarf hann. Síðan sá ég hann aftur í gærkvöldi þar sem hann sat á steini í höfninni.“ Þröstur tók myndirnar sem fylgja með fréttinni en kópurinn virtist ekkert hræddur og forðaðist ekki fólkið er það færði sig nær honum. 

Kópurinn virtist njóta athyglinnar sem hann fékk í dag en bæði ferðamenn og heimamenn hópuðust að honum og tóku myndir. „Það stoppaði ekki traffíkin hjá honum í dag,“ segir Þorsteinn og hlær. Kópurinn lá á steinhleðslu sem er umkringd vatni og því komst fólk ekki alveg að honum. „En þegar hann sást fyrst hérna þá leyfði hann fólki að klappa sér.“ Kópurinn virðist því mannelskur og er það kannski ekki að furða því makrílbátarnir hafa verið að gefa honum fisk í matinn. „Hann er líka búinn að stækka síðan ég sá hann síðast,“ fullyrðir Þorsteinn.

„Hann er búinn að veita mörgum ánægju, bæði ferðamönnum og heimafólki.“

Kópar eru alla jafna á spena hjá móður sinni til fjögurra vikna aldurs en halda þá út í heiminn og sjá um sig sjálfir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×