Innlent

Leit við og sá son sinn hangandi á hálsinum í rúllugardínum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá áverkana á hálsi drengsins.
Hér má sjá áverkana á hálsi drengsins.
„Þetta var hræðilegt. Ég sá að hann gat ekki andað og þurfti að stökkva til,“ segir Hafdís Ásta Guðmundsdóttir sem horfði á son sinn hanga á hálsinum í bandi sem er notað til að hækka og lækka rúllugardínur, um miðjan dag í gær. „Hann gat ekki einu sinni grátið, hann náði ekki andanum,“ segir Hafdís um atvikið. Hún hvetur foreldra til þess að gæta þess vel að börn komist ekki í þessi bönd og vonast til þess að fleiri geti lært af sinni reynslu.

Sonur Hafdísar er tveggja ára og var að fara að horfa á sjónvarpið í gær, á heimili fjölskyldunnar í Garðinum. „Hann var að leika sér í sófanum og sófinn er upp við  gluggakistuna. Hann er rosalega hrifinn af hálsmenum og hefur örugglega haldið að bandið væri hálsmen. Svo ætlaði hann að stökkva í sófann og þá var bandið fast við hálsinn á honum.“

„Ég var að setja mynd í tækið fyrir hann og sneri baki í hann. Ég heyrði svona köfnunarhljóð og þegar ég leit við blasti þetta við mér.“ Bandið í gardínunum gaf ekki eftir og þurfti Hafdís að stökkva til og losa hann.

„Ég þakka bara fyrir að ég var þarna hjá honum,“ segir hún. „Maður þarf ekki að líta af börnunum í nokkrar sekúndur, til þess að svona geti gerst. Ef ég hefði ekki verið hjá honum hefði þetta getað farið svo miklu, miklu verr.“

Hafdís hafði samband við móður sína sem er sjúkraliði. „Ég hringdi í mömmu, það voru mín fyrstu viðbrögð. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara með hann til læknis en hann slapp bara það vel. Hann var fljótlega orðinn mjög hress og farinn að hlæja og leika sér. En þetta var óneitanlega mikið „sjokk“ fyrir okkur.“ Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hlaut sonur Hafdísar áverka á hálsi. „Í morgun, þegar við vöknuðum, var þetta farið. Þetta fór því alveg ótrúlega vel. Nú er ég búin að hengja böndin í öllum gardínunum upp, hérna á heimilinu, þannig að hann komist ekki í þau. Ég hvet aðra foreldra að gera slíkt hið sama, því slysin gera aldrei boð á undan sér,“ segir Hafdís.

Hafdís skrifaði um málið á Facebook. Færslu hennar má sjá hér að neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×