Innlent

Stefnir í metviku á vefsíðu Veðurstofunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Besta vika Vedur.is var í maí 2010 þegar Eyjafjallajökull gaus.
Besta vika Vedur.is var í maí 2010 þegar Eyjafjallajökull gaus. Mynd/Skjáskot af vef Modernus.is
Landsmenn hafa líkt og fjölmiðlar sýnt jarðhræringunum við Bárðarbungu á Vatnajökli mikinn áhuga undanfarna viku. 188 þúsund notendur heimsóttu vef Veðurstofunnar í síðustu viku.

Samræmd vefmæling íslenskra vefmiðla fer fram á vefsíðu Modernus. Þar eru vikulega, á mánudögum, birtar tölur yfir fjölda notenda sem sóttu heim þær vefsíður sem taka þátt í mælingunni. Meðal vefsíðna þar er Vedur.is. en mælingin nær frá mánudegi til sunnudags.

Rúmlega 188 þúsund notendur heimsóttu vefsíðu Veðurstofunnar á tímabilinu 11. ágúst til 17. ágúst. Er um að ræða næstbestu viku Vedur.is en tæplega 206 þúsund notendur sóttu vefsíðuna heim í maí 2010 þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst.

Hafa þarf í huga að síðasta vika var heldur tíðindalítil þar til kom að helginni. Fyrstu fregnir af jarðhræringum í Bárðarbungu komu í fjölmiðla á laugardaginn og því aðeins tveir daga í síðustu talningu þar sem reikna má með að Bárðarbunga hafi haft áhrif á mælingar.

Reikna má með því að töluvert fleiri notendur hafi sótt Vedur.is heim í þessari viku enda Bárðarbunga á allra vörum. Fastlega má því búast við því að 206 þúsund notenda múrinn verði rofinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×