Innlent

Metfjöldi var á Menningarnótt

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Metfjöldi var á Menningarnótt í ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Höfuðborgarstofu. Þar kemur fram að umferð hafi gengið greiðlega eftir að dagskrá lauk klukkan 23:15. Talið er að vel yfir 100 þúsund hátíðargestir hafi tekið þátt í Menningarnótt. Í fréttatilkynningunni segir einnig að hátt í 600 viðburðir hafi verið á dagskrá frá morgni til kvölds en dagskráin endaði, eins og venja er, með flugeldasýningu á hafnarbakkanum.

Hér fyrir ofan má sjá myndband af flugeldasýningunni sem Sindri Reyr Einarsson, tökumaður Stöðvar 2, tók.

Fréttatilkynningin lítur svo út í heild sinni:

Metfjöldi skemmti sér saman á Menningarnótt sem fór fram í dag í blíðskaparveðri en formlegri dagskrá lauk núna klukkan 23:15. Hátíðin tókst mjög vel og er það mat skipuleggjenda og lögreglu að sjaldan ef nokkurn tímann hafi verið saman kominn jafn mikill fjöldi í miðborg Reykjavíkur. Talið er að vel yfir 100.000 hátíðargestir hafi tekið þátt í Menningarnótt. Hátt í 600 viðburðir voru á dagskrá frá morgni til kvölds og lokaviðburðurinn var eins og alltaf flugeldasýningin á hafnarbakkanum. Við skipulagningu var reynt að létta álagi á þeim svæðum þar sem mestur mannfjöldi safnast saman venjulega og dreifðist fólk betur um hátíðarsvæðið nú en fyrri ár. Áhersla var lögð á dagskrá á Hverfisgötu og mikið var um að vera í Hljómskálagarðinum auk þess sem fjöldi minni viðburða var um allt hátíðarsvæðið. Umferð gekk mjög vel að sögn lögreglu sem þakkar það stærra lokunarsvæði.

Stækkunin hafði það í för með sér að akstur var að mestu í kringum hátíðarsvæðið í stað þess að bílar væru að keyra inn á svæðið og koma sér út aftur líkt og fyrri ár. Strætó bauð upp á ókeypis ferðir á Menningarnótt líkt og fyrri ár og virðast fleiri hafa nýtt sér það heldur en í fyrra. Mjög góð nýting var á nýrri strætóleið sem ferjaði fólk frá stórum bílastæðum við Kirkjusand og Borgartún að Hallgrímskirkju og til baka. „Ég er einlæglega þakklátur öllum þeim sem komu í miðborgina í dag og í kvöld. Allir voru sér og sínum til sóma og gleði og hamingja sveif yfir öllu.” sagði Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgastofu í kvöl„Lögregla, björgunarsveitir og allir sem komu að skipulagi hátíðarinnar stóðu sig frábærlega. Ráðleggingaröryggisráðsins og þær breytingar sem gerðar voru í samræmi við þær í ár tókust frábærlega. Listafólki öllu þakka ég líka fyrir hönd stjórnar menningarnætur innilega fyrir litríkt framlag af öllum stærðum og gerðum. Í dag og í kvöld skemmtum við okkur eins og við værum öll ein fjölskylda á risastóru ættarmóti. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera með.” Stjórn Menningarnætur þakkar borgarbúum og gestum Menningarnætur fyrir samveruna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×