Innlent

1300 skjálftar á nítján tímum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Vilhelm
Um það bil 1.300 jarðskjálftar mældust undir norðvestanverðum Vatnajökli frá miðnætti til klukkan 19:00 í dag. Meginhluti þeirra varð nyrst í bergganginum í Dyngjujökli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá vakthafandi jarðvísindamanni á Veðurstofunni. Á sama tíma hefur jarðskjálftaþyrpingin færst í norður og nær nú um 4 km norður fyrir jökulsporð Dyngjujökuls.

Dreifing skjálftaþyrpingarinnar var hægari en í gær. Fleiri en 20 skjálftar í þyrpingunni voru stærri en 3 og fjórir á bilinu 4-4,3. Jarðskjálftarnir eru enn á 5-12 km dýpi og engin merki um að þeir séu að færast ofar og enginn lágtíðniórói.

Eftir stóru skjálftana, 5,3 og 5,1 í öskju Bárðarbungu varð skjálfti, 4,8 að stærð, klukkan 15 og fylgdu margir litlir skjálftar í öskjunni í kjölfarið. Líklegt er að stærstu skjálftarnir orsakist af aðlögun öskjunnar vegna þrýstingsbreytinga undir henni þegar kvika streymir frá henni - svipað og undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×