Innlent

Sviku pítsu út úr leigubílsstjóra

Bjarki Ármannsson skrifar
Mennirnir hugðust ekki greiða fyrir pítsuna.
Mennirnir hugðust ekki greiða fyrir pítsuna. Vísir/Getty
Leigubílstjóri á Selfossi varð fyrir barðinu á óprúttnum mönnum nú í síðustu viku. Mennirnir pöntuðu þá pítsu og óskuðu eftir því að bílstjórinn legði út fyrir henni og keyrði hana til þeirra. Þegar maðurinn hafði svo komið pítsunni á áfangastað, upplýstu mennirnir hann um að þeir ætluðu ekki að greiða honum krónu, hvorki fyrir pítsuna né akstur.

Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar á Selfossi. Þar sem leigubílstjórinn stóð einn gegn fimm mönnum tók hann þá ákvörðun að keyra einfaldlega á brott og kæra fjársvikin til lögreglu.

Í skýrslunni segir að liðin vika hafi verið erilsöm lögreglumönnum embættisins. Brotist var inn í tvo sumarbústaði í Grímsnesi og hljómflutningstækjum stolið úr öðrum þeirra. Þá hefur þegar verið greint frá innbroti á veitingastaðnum Seylon í nótt og eignarspjöllum á bíl aðfaranótt laugardags.

Alls voru skráð 44 sakamál, þar á meðal þrjár minni háttar líkamsárásir, og ellefu slys og umferðaróhöpp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×