Innlent

Harmonikkum stolið og antíkpíanó skemmt í innbroti

Bjarki Ármannsson skrifar
Baldur og ein harmonikkanna sem saknað er.
Baldur og ein harmonikkanna sem saknað er. Mynd/Baldur Sigurðarson
„Það getur enginn sett sig í þessi spor fyrr en maður hefur lent í þessu, allavega gat ég það ekki,“ segir Baldur Sigurðarson. Hann kom að heimili sínu í Garðabæ á föstudagskvöld og sá að brotist hafði verið inn. Baldur hefur ekki tölu á því hversu miklu var stolið.

„Ég geri mér enga grein fyrir því,“ segir hann. „Þeir tóku hringana mína, farsíma, Go-Pro myndavél, GPS-tæki tvö. Ég drekk varla en ég var með vínskáp, fín vín. Hann var náttúrulega hreinsaður.“

Einnig voru teknar nokkrar fartölvur, en Baldur hefur undanfarið séð um fartölvuviðgerð fyrir aðra. Mest segir hann þó að muni um hljóðfæri hans. Baldur er harmonikkuleikari og þrjár harmonikkur með mikið tilfinningalegt gildi voru teknar í innbrotinu.

„Þetta eru börnin mín. Þetta eru dýrgripir, ég er ekki að fara að fá svona nikkur aftur,“ segir Baldur, sem er öryrki í dag.

Einnig skemmdist í innbrotinu 109 ára „antík“-píanó. Baldur segir að þjófarnir hafi misst eitthvað á það, mögulega eina harmonikkuna.

„Það sér ekki á því, en það er eitthvað brotið inni í því. Þetta er sérsmíðað,“ segir hann.

Baldur er enn að taka saman með hjálp vina hvað nákvæmlega varð eftir og hvers er saknað. Hann segir það starf ekki öfundsvert.

„Þetta er alveg ömurlegt,“ segir hann. „Fyrir utan það að maður sefur ekki á nóttinni. Vitandi að einhver hafi farið inn til manns og í gegnum allar eigur manns. Það er alveg bara fáránlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×