Innlent

Ekki hægt að útiloka að gos sé hafið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar. visir/sáp
„Vísindamenn, í flugi í kvöld, sáu að þeir telja nýjar sprungur eða sigkatlar sem hafa myndast í jöklinum,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnardeildar, í samtali við Vísi í kvöld.

Víðir ræddi við fréttamann þegar fundur jarðvísindamanna og fulltrúa Veðurstofunnar í húsakynnum Veðurstofunnar var í gangi í kvöld.

Til fundarins var boðað vegna nýrra sigkatla sem sérfræðingar greindu í flugi yfir jarðhræringarsvæði suðaustur af Bárðarbungu í dag.

„Sprungurnar eru um fjögurra til sex kílómetra langar og dýpið á þeim mun vera fimmtán metrar. Þetta er það sem við erum að skoða mjög vel núna, það þarf töluverðan hita til að bræða svona mikinn ís.“

Víðir segir að það sé ekki að sjá neinn gosóróa í mælunum og þetta sé  því nokkuð óútskýrt eins og staðan er.

„Það er ekki hægt að útiloka neitt um það hvort gos sé hafið. Það eru ýmsar kenningar í gangi hér á fundinum og menn eru að ræða fram og til baka hvað þetta getur verið.“

Víðir segir að núna sé verið að fara mjög ítarlega yfir mælagögn.

„Það er svo mikil jarðskjálftavirkni í gangi og það getur eitthvað hafa falist í hávaðanum í þeim. Svo eru menn að reikna út hvað þetta getur verið mikið vatn sem þarna er og einnig er verið að skoða hvert það getur hafa farið.“

Víðir segir að sprungurnar séu á vatnaskilum Grímsvatna og Jökulsá á Fjöllum.

„Það er alveg hugsanlegt að vatn hafi lekið í Grímsvötn og það er verið að sækja gögn í mælana þar.“


Tengdar fréttir

Tveir skjálftar yfir fimm stigum og einn stór nærri Öskju

Meiri skjálftavirkni var á Bárðarbungusvæðinu í nótt en í fyrrinótt og mældust um 500 skjálftar frá miðnætti til klukkan sex í morgun. Þar af mældust tveir yfir fimm stig og fjölmargir skjálftar upp á tvö til þrjú stig mældust einnig.

Lengist um fjóra kílómetra á dag

Síðustu tíu daga hefur berggangurinn undir Vatnajökli lengst um fjóra kílómetra á dag, að meðaltali. Sérfræðingur segir atburðinn einn þann markverðasta sem Íslendingar hafa orðið vitni að, en stærð berggangsins sé vanmetin og stefna hans beint á Öskju allrar athygli verð.

Nýir sigkatlar gætu bent til goss

Fjögurra til sex kílómetra langar sprungur hafa myndast sunnan við af Bárðarbungu. Þetta staðfestir starfsmaður Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×