Erlent

Erdogan næsti forseti Tyrklands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Erdogans fagna niðurstöðunum.
Stuðningsmenn Erdogans fagna niðurstöðunum. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, vann í dag fyrstu beinu forsetakosningarnar í landinu með rétt rúmlega helming atkvæða.

Þetta kemur fram í máli aðstoðarmanna hans og í bráðabirgðatölum frá hinum ýmsu héröðum landsins. Al Jazeera greinir frá.

Erdogan hefur farið með tögl og haldir í stjórnkerfi landsins undanfarin tólf ár og sigur dagsins í dag framlengir stjórnartíð hans um önnur fimm ár.

„Ég bíð eftir því að dómarinn flauti leikinn af en áhorfendur hafa kveðið upp sinn dóm. Fólkið hefur sýnt vilja sinn í verki,“ sagði Erdogan áður en hann steig upp í flugvél í Istanbúl áður en hann flaug til Ankara þar sem hann ávarpaði stuðningsmenn sína.

Helsta andstæðingur Erdogans, Ekmeleddin Ihsanoglu, sagði í tilkynningu í kvöld:  „Ég óska forsætisráðherranum til hamingju og velfarnaðar í starfi.“

Sigur Erdogans er talinn til marks um vilja  tyrknesku þjóðarinnar um að veita forseta landsins meiri völd en hann hefur haft áður á kostnað þingsins.

Forsætisráðherrann lagði mikla áherslu í kosningabaráttu sinni á uppbyggingu innviða, utanríkismál, umbætur í efnahagskerfi landsins og nýja stjórnarskrá sem kvæði á um virkara forsetaembætti. Áherslur hans virðast hafa fallið í kramið hjá tyrknesku þjóðinni því samkvæmt nýjustu tölum hlaut Erdogan 52 prósent atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×