Innlent

Líkamsárásin á Flúðum: Lögregla telur að ákæra verði gefinn út fljótlega

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Flúðum.
Frá Flúðum. Vísir/Vilhelm
Rannsókn lögreglunnar á Selfossi á alvarlegri líkamsárás sem átti sér stað á Flúðum um verslunarmannahelgina hefur gengið vel. Ívar Bjarki Magnússon hjá rannsóknardeild lögreglunnar gerir ráð fyrir því að ákæra verði send til ríkissaksóknara fljótlega.

Líkamsárásin var mjög alvarleg, en eins og Vísir greindi frá á sínum tíma var ungur maður skorinn illa á fótlegg með dúkahníf á skemmtistaðnum Útlaginn.  Sá slasaði ku vera óvinnufær næstu mánuði. Athugið að mynd með fyrri frétt er alls ekki fyrir viðkvæma.

Að sögn Ívars er skýrslutöku lögreglu að mestu lokið og nú einungis beðið vottorða frá læknum. Hann segir að nokkur vitni að atburðinum hafi gefið sig fram og að atburðarás liggi nú nokkurn veginn fyrir.

Að sögn aðstandenda mannsins sem slasaðist, lenti hann í orðaskaki við karlmann á þrítugsaldri sem hafði verið með alvarlegar hótanir í garð viðskiptavina skemmtistaðarins. Fór svo að mennirnir lentu í stympingum með þeim afleiðingum að sá sem hafði verið með hótanirnar skar hinn með dúkahníf sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×