Innlent

Dúkahnífaárásin á Flúðum: Lögreglan leitar vitna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skór fórnarlambsins var alblóðugur eftir átök næturinnar.
Skór fórnarlambsins var alblóðugur eftir átök næturinnar. MYND/AÐSEND
Lögreglan á Selfossi leitar vitna að hnífaárás sem átti sér stað á skemmtistaðnum Útlaganum á Flúðum aðfaranótt laugardags.

Vísir flutti fréttir af árásinni á laugardag en ungur maður slasaðist illa eftir að maður á þrítugsaldri sem hafði verið með alvarlegar hótanir í garð viðskiptavina skemmtistaðarins veittist að honum. Fór svo að mennirnir lentu í stympingum með þeim afleiðingum að sá eldri skar þann yngri illa á fótlegg með dúkahníf sem sá eldri var með á sér.

Fórnarlambið slasaðist illa en dúkahnífurinn fór í gegnum vöðva mannsins og talið er að hann verðir óvinnufær næstu mánuði.

Þorgrímur Óli Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður segir í samtali við Vísi að málið sé rannsakað sem líkamsárás. Mennirnir hafi lent í útistöðum og segir Þorgrímur að fórnlambið hafi hrint árásarmanninum. Svo virðist sem árásarmaðurinn hafi skorið kálfa fórnarlambsins er hann  féll til jarðar og blóðgað sig sjálfur í hamaganginum. Því getur lögreglan sér til að um óviljaverk hafi verið að ræða – að einhverju leyti.

Þó sé nokkrum spurningum enn ósvarað og biðlar lögreglan því til þeirra sem gætu haft einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480-1010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×