Erlent

Fann dóttur sína áratug eftir flóðbylgjuna

Atli Ísleifsson skrifar
Ranudhatul Jannah (önnur frá hægri) var fjögurra ára gömul þegar flóðbylgjan skall á heimili fjölskyldu hennar í vesturhluta Aceh.
Ranudhatul Jannah (önnur frá hægri) var fjögurra ára gömul þegar flóðbylgjan skall á heimili fjölskyldu hennar í vesturhluta Aceh. Vísir/AFP
Fjórtán ára stúlka hefur verið sameinuð fjölskyldu sinni á ný, tæpum áratug eftir að hún varð viðskila við foreldra sína í flóðbylgjunni sem reið yfir Aceh-hérað í Indónesíu á annan dag jóla 2004.

Það var frændi stúlkunnar sem varð á vegi hennar fyrr í sumar, en honum þótti hún svipa til löngu horfinnar frænku sinnar sem hvarf í hamförunum tíu árum fyrr.

Ranudhatul Jannah var fjögurra ára gömul þegar flóðbylgjan skall á heimili fjölskyldunnar í vesturhluta Aceh. Flóðbylgjan hrifsaði Ranudhatul og sjö ára bróður hennar í burtu með flóðbylgjunni og eftir rúma mánaðarlanga leit gáfu foreldrar hennar upp alla von um að finna börn sín á lífi.

Móðir stúlkunnar segir það kraftaverki líkast að hafa fengið dóttur sína aftur í hendurnar, nú tíu árum síðar.

Ranudhatul lifði flóðbylgjuna af en hrifsaðist út á afskekktar eyjar í suðvesturhluta héraðsins þar sem fiskimaður bjargaði henni. Flutti hann hana á meginlandið þar sem hún ólst upp hjá móður fiskimannsins.

Í frétt Sky segir að foreldrar Ranudhatul hafi heimsótt stúlkuna í júní og komist að því að vissulega var um dóttur þeirra að ræða.

„Hjarta mitt sló svo hratt þegar ég sá hana. Ég faðmaði hana og hún mig og mér leið svo vel að hafa hana aftur í örmum mér,“ sagði Jamaliah, móðir Ranudhatul.

Um 170 þúsund manns fórust þegar tíu metra há flóðbylgja skall á Aceh-hérað þann 26. desember 2004. Flóðbylgjan orsakaðist af jarðskjálfta upp á 9,1 stig undan ströndum héraðsins. Að auki fórust 60 þúsund manns í öðrum héruðum Indónesíu og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×