Innlent

Ríkisstjórnin hyggst stöðva áform Nubos á Svalbarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Huang Nubo.
Huang Nubo.
Norska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún stefni að því að norska ríkið kaupi landið við Aðventufjörð á Svalbarða sem Kínverjinn Huang Nubo hefur augastað á. 

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að vinna að lausn sem felur í sér að ríkið eignist Eystri-Aðventufjörð. Það er einfaldlega eðlilegt og rétt að ríkið gangi inn til að taka yfir eignina,“ segir Monica Mæland, viðskipta-, iðnaðar- og sjávarútvegráðherra, í yfirlýsingu vegna málsins.

„Með ríkiseign og norskri löggjöf erum við í bestri aðstöðu til að stjórna Svalbarða í þágu almennings,“ segir norski ráðherrann ennfremur.

Frá Longyearbyen, höfuðstað Svalbarða. Landið sem Nubo vill kaupa er við fjallið sem sést fjær.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Landið sem um ræðir er 217 ferkílómetrar og önnur af tveimur landareignum í einkaeigu á Svalbarða. Það er skammt frá höfuðstaðnum Longyearbyen og aðalflugvelli eyjanna.  Þá er fjall á landareigninni sem áætlað er að geymi yfir 20 milljónir tonna af kolum. 

Þótt norsk stjórnvöld reyni nú að hindra Nubo í að kaupa hluta af Svalbarða virðast þau ekki hafa stöðvað kaup hans á jörð í Troms-fylki í Norður-Noregi. Að sögn norskra fjölmiðla keypti Nubo náttúruperlu norðan við Tromsö, á svæði með fallegri strandlengju, miklum skógi og tignarlegum fjallatindum sem kallaðir eru Lyng-alparnir. Þar hyggst hann reisa fimm stjarna lúxushótel.


Tengdar fréttir

Segja það koma til greina að kaupa Grímsstaði á Fjöllum

Efnahags- og viðskiptaráðherra segir til greina koma að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum og landið verði þar með þjóðareign. Hann telur ríkið hafa efni á að kaupa landið en kaupsamningur sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo gerði við landeigendur hljóðaði upp á 800 milljónir.

Ríkisstjórnin skipar starfshóp til að fara yfir mál Huangs

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að skipa hóp ráðherra og stafsmanna ráðuneyta til að fara yfir mál Huang Nubos og fyrirhugaða leigu hans á Grímsstöðum á fjöllum. Að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra mun hópurinn mynda afstöðu ríkisstjórnarinnar til málsins enda hafi engar óafturkræfar ákvarðanir verið teknar um fyrirhugaðar framkvæmdir Nubos á landinu. Hópurinn þarf ekki að skila niðurstöðu innan ákveðins tíma en mun taka til starfa eins fljótt og auðið er.

Tortryggja jarðakaup Nubos á Svalbarða

Ósk Kínverjans Huangs Nubo að kaupa hluta af Svalbarða vekur tortryggni í Noregi. Þar hafa bæði stjórnmálamenn og Kínasérfræðingar varað við sölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×