Þingmenn stjórnarandstöðunnar íhuga að leggja fram vantrauststillögu á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra þegar þing kemur saman í haust. Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir svörum frá ráðherra varðandi meint afskipti hennar af rannsókn lögreglu á lekamálinu.
Óformlegar viðræður hafa verið í gangi milli nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar um að leggja fram slíka tillögu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er miðað við að tillagan verði lögð fram um leið og þing kemur saman í haust.
Umboðsmaður Alþingis óskaði í gær eftir svörum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra útaf meintum afskiptum hennar af rannsókn lögreglu á lekamálinu. DV fullyrti í vikunni að Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi ákveðið að segja af sér vegna undirliggjandi hótana og afskipta ráðherra af störfum lögreglunnar í tengslum við málið.
Umboðsmaður ræddi við Stefán og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara útaf fréttaflutningi DV en fram kemur í bréfi hans til ráðherra að ekki sé útilokað að hann taki málið til formlegrar athugunar.
Hanna Birna hefur vísað fullyrðingum DV á bug og í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær segist hún ætla að svara umboðsmanni fyrir helgi.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun funda um málið í næsta mánuði en Valgerður Bjarnadóttir fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni kallaði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær eftir skýrum svörum frá ráðherra vegna málsins.
Íhuga að leggja fram vantrauststillögu á Hönnu Birnu
Höskuldur Kári Schram skrifar
