Innlent

Móðir drengsins: „Erum í spennufalli“

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúum Snæfellsbæjar var mjög brugðið vegna líkamsárásarinnar.
Íbúum Snæfellsbæjar var mjög brugðið vegna líkamsárásarinnar. Vísir/Pjetur
„Við erum núna í spennufalli og höfum bara verið á átta okkur á þessu, en honum líður bærilega,“ segir móðir drengs sem ráðist var á í fótboltaleik á Snæfellsnesi í gær. Drengurinn fékk höfuðáverka eftir hnefahögg og spörk í höfuðið og var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.

Móðir drengsins var ekki á leiknum og var annarsstaðar á landinu. Miðað við það sem hún hefur heyrt, segir hún ánægð með viðbrögð þeirra sem voru á vellinum. Strax hafi verið gripið inn í þegar ráðist var á drenginn. Þrátt fyrir það var sparkað í höfuð hans minnst tvisvar sinnum þar sem hann lá meðvitundarlaus á jörðinni.

Meiðsli drengsins voru minni en óttast var í fyrstu en lögreglan á Akranesi segir það hafa verið góða ákvörðun að kalla eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Best sé að taka enga áhættu með alvarlega höfuðáverka.

Því er móðir drengsins sammála. „Þetta voru rétt viðbrögð hjá öllum.“ Drengurinn var útskrifaður um eitt leytið í nótt, en áfram var þó fylgst með honum.

Lögreglan mat það svo að um alvarlega  líkamsárás væri að ræða og er því sjálfkært í málinu. Skýrslutökur stóðu yfir til miðnættis í nótt.

Jónas Gestur Jónasson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvíkur, segir íbúa Snæfellsbæjar hafa verið mjög brugðið og að um fátt annað hafi verið rætt í bærnum.


Tengdar fréttir

Meiðsli drengsins minni en óttast var

Líðan leikmanns Snæfellsness, sem fluttur var með þyrlu landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í gær, er mun betri en talið var í fyrstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×