Erlent

Líkamsleifarnar á leið til greiningar í Hollandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Mótmælendur við sendiráð Rússlands og Úkraínu í Kuala Lumpur í Malasíu krefjast réttlætis fyrir þá sem fórust með Malaysian flugvélinni og að þeir sem beri ábyrgð á dauða fólksins um borð verði dregnir til saka. Líkamsleifar hluta þeirra sem voru um borð voru fluttar á yfirráðasvæði úkraínskra stjórnvalda í morgun.

Aðskilanaðrsinnar í Donetsk héraði gengu frá líkamlsleifum þeirra sem fórust með Malaysian flugvélinni á fimmtudag í síðustu viku í kælda lestarvagna og hafa fulltrúar flugmálayfirvalda í Hollandi sem skoðuðu aðstæður í gær sagt að frágangurinn væri viðunandi. Á miðnætti síðast liðna nótt að íslenskum tíma hélt lestin af stað frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna og er nú komin til borgarinnar Kharkiv á yfirráðasvæði stjórnvalda í Kænugarði.

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra hefur verið á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu á svæðinu.

„Ég fylgdi lestinni sem flutti líkin hingað. Nú er semsagt búið að flytja þau til Kharkiv. Ég fór sem fulltrúi ÖSE  með lestinni og við vorum að koma fyrir stundu síðan,“ segir Stefán Haukur.

Stór hluti líkamsleifanna séu um borð í lestinni en tólf manna hópur sérfræðinga Malaysian sem kom að brakinu í gær, fylgir líkamsleifunum einnig áfram til Hollands.

„Nú eru tæknimenn frá Hollandi og fleiri löndum sem munu fara í það að ganga betur frá og síðan verður flutningur til Hollands þar sem kennslaferlið fer af stað. Þar sem farið verður í það að vinna frekari rannsókn á að bera kennsl á lík og líkamsleifar,“ segir Stefán Haukur. Flogið verði með líkamsleifarnar til  Hollands frá Kharkiv, en samkomulag sé um að Hollendingar stýri þeirri vinnu að bera kennsl á fólkið.

Fjörtíu og fjórir Malasíubúar, þar af fimmtán manna áhöfn, fórust með flugvélinni. Hópur fólks mótmælti fyrir utan sendiráð Rússlands og Úkraínu í Kuala Lumpur í morgun og sagði ekki nóg að afhenda líkamsleifarnar og flugrita flugvélarinnar sem fulltrúar flugfélagsins fengu afhenta í gær.

„Það er ekki nóg að afhenda líkamsleifarnar og flugritana. Við krefjumst þess að réttlætinu verði fullnægt. Við viljum komast að því hverjir hinir raunverulegu sökudólgar eru, glæpamennirnir, samverkamennirnir;  sem fullyrt hafa að flugvélin hafi verið skotin niður. Við viljum vita hverjir það voru sem skutu flugvélina niður,“ sagði Khairul Azwanharuni, einn skipuleggjenda mótmælanna í Kuala Lumpur í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×