Innlent

Ekkert umsóknarferli þegar bæjarstjórn réð fyrrum bæjarfulltrúa í vinnu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir og Elvar Jónsson.
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir og Elvar Jónsson.
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð til síðustu fjögurra ára, hefur verið ráðin verkefnastjóri atvinnumála í sveitafélaginu. Austurfrétt greindi fyrst frá.

Eydís Ásbjörnsdóttir, fulltrúi Fjarðalistans í bæjarráði, sat hjá við ráðninguna þar sem hún var hluti af meirihlutasáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

„Við viljum að þeir klári þær mannaráðningar sem þar koma fram,“ segir Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, í samtali við Vísi. Hann leggur áherslu á að auglýsa eigi störf sem þessi.

„Við hjá Fjarðalistanum viljum að öll störf séu auglýst,“ segir Elvar.

Hlutverk Ástu Kristínar, fyrrum fulltrúa nýsköpunar og þróunar hjá Austurbrú, verður að huga að stýringu atvinnumála í Fjarðarbyggð m.a. til þess að vinna að stefnumótun og fylgja eftir þróun á uppbyggingu miðstöðvar fyrir olíuleit og þjónustu við slíkan iðnað.

Gert var ráð fyrir starfinu í meirihlutasamningi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Ásta Kristín er 35 ára gömul með menntun í viðskiptafræði, iðnrekstrarfræði og verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur um árabil sinnt ráðgjöf við ráðgjöf og sveitarfélög á Austurlandi á sviði nýsköpunar og þróunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×