Innlent

Ofurhugi á leið í kringum hnöttinn staddur í Reykjavík

Bretinn Colin Hales er nú staddur hér á landi en hann er á leið í kringum hnöttinn á lítilli flugvél. Colin kom til Íslands á mánudag til að taka eldsneyti en hann hefur nýtt tímann til að skoða landið og hefur meðal annars flogið til Akureyrar og Egilsstaða. Héðan fer hann til Grænlands og stefnir á að taka þátt í stórri flugsýningu í Bandaríkjunum síðar í þessum mánuði.

„Ég get ekki neitað því að ég var mjög spenntur fyrir því að koma til Íslands og landið hefur ekki valdið mér vonbrigðum. Ég hef séð landslag sem ég hef hvergi annars staðar séð. Ég hef ferðast um allan heim en hvergi séð jökla og eldfjöll á sama stað. Þetta er svo sannarlega stórglæsilegt,“ segir Colin.

Vélina smíðaði Colin sjálfur en hann er flugvélaverkfræðingur að mennt. Það tók hann 14 ár að smíða vélina en hún fór fyrst á loft fyrr á þessu ári. En er ferð sem þessi ekki hættuleg?

„Ég get ekki neitað því að það eru ákveðnir áhættuþættir. Ég hef aðeins eina vél og ef hún stoppar þá verð ég kominn í sjóinn á nokkrum mínútum. Það er ekki þægileg tilhugsun,“ segir Colin.

Colin er sem stendur veðurtepptur hér á landi en hann stefnir á að fara af landi brott á föstudag, það er að segja ef veður leyfir.

„Fólk er nú oft að gera grín að veðrinu í Bretlandi. En veðrið hér á Ísland, það breytist stöðugt. Svo já, það hefur vissulega skapað ákveðin vandamál fyrir mig,“ segir Colin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×