Fótbolti

"Þjóðverjar fögnuðu eins og nasistar“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fögnuður þýska landsliðsins á risastórri athöfn í höfuðborginni Berlín á þriðjudag hefur verið harkalega gagnrýnd víða um heim, ekki síst í heimalandinu.

Afar vel var tekið á móti leikmönnum landsliðsins eftir sigur þeirra á HM í Brasilíu þar sem þeir lögðu Argentínumenn að velli í úrslitaleiknum, 1-0.

Leikmenn brugðu á leik með hinum ýmsu uppátækjum. Þeir hafa hins vegar verið harkalega gagnrýndir fyrir svokallaðan gaucho-dans sem má sjá neðst í fréttinni.

„Svona ganga gauchos - svona ganga þeir,“ sungu þeir og áttu þar með við Argentínumenn. „En svona ganga Þjóðverjar - svona ganga þeir,“ var sungið við miklar undirtektir viðstaddra.

Gaucho þýðir kúreki í Suður-Ameríku og þar þótti mörgum dans Þjóðverja afar óviðeigandi. Einn þeirra er Victor Moreales, þekktur fjölmiðlamaður frá Úrúgvæ sem líkti framkomu þýsku leikmannanna við nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

„Þeir höguðu sér í raun eins og nasistar,“ var haft eftir Morales í spænskum fjölmiðlum. „Fólk sem hugsaði eins og þessir leikmenn myrtu sex milljónir manna. Nákvæmlega svona með þessum hugsunarhætti - með svona heimsku og mikilmennskubrjálæði.“

„Svona höguðu þeir sér gagnvart gyðingum, sígaunum og þeim sex milljónum sem þeir myrtu á fjórða og fimmta áratug síðustu aldra. Þetta fólk hefur lítið gert fyrir Þýskaland.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×