Erlent

Pútín og Merkel hvetja til vopnahlés í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Pútín vildi ekki tjá sig um upplýsingar um að aðskilnaðarsinnar á bandi Rússa beri ábyrgð á ódæðinu.
Pútín vildi ekki tjá sig um upplýsingar um að aðskilnaðarsinnar á bandi Rússa beri ábyrgð á ódæðinu. Vísir/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvetur nú bæði úkraínska stjórnarherinn og aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu til að leggja niður vopn og hefja friðarviðræður sem fyrst. „Það verður að koma á friði í Úkraínu eins fljótt og auðið er,“ segir Pútín.

Pútín sagðist hafa miklar áhyggjur af atburðunum í Úkraínu. „Þetta er skelfilegt. Þetta er harmleikur,“ segir í frétt RTE.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði fyrr í dag að rússnesk stjórnvöld yrðu leggja sitt að mörkum til að flýta friðarferlinu í Úkraínu. Sagði Merkel að vopnahlé væri nauðsynlegt til að hægt væri að rannsaka atburðinn þegar MH17 vél Malaysian Airlines var skotin niður um miðjan dag í gær.

Merkel sagði það of snemmt að taka ákvörðun um hvort herða ætti viðskipaþvinganir gegn Rússum. Sagði hún að margt benti til þess að vélin hafi verið skotið niður og að allir þeir sem ábyrgð bæru yrðu látnir svara til saka.

Á fréttavef Reuters segir Merkel að atburðirnir hafi enn og aftur sýnt fram á að nauðsynlegt sé að ná pólitískri lausn og að Rússar beri ábyrgð á atburðum þeim sem eiga sér stað í Úkraínu nú um stundir.

Pútín sakaði í gær úkraínsk stjórnvöld um að bera ábyrgð á ódæði gærdagsins þar sem það hafi átt sér stað í úkraínsku loftrými. Hann hefur jafnframt sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð á ófriðinum í landinu.

Pútín tjáði sig ekki um þær upplýsingar að aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar hafi fengið vopn frá Rússum sem hafi verið notuð til að granda farþegavélinni þar sem 298 farþegar og áhafnarmeiðlimir létu lífið.

Úkraínustjórn hefur farið fram á að alþjóðlegt teymi verði fengið til að rannsaka atburðinn og hefur Bandaríkjastjórn tilkynnt að hún sé reiðubúin að koma að slíkri rannsókn.


Tengdar fréttir

Þjóðarsorg í Hollandi

Hollendingar eru í áfalli vegna dauða 173 Hollendinga sem fórust þegar MH17 var skotin niður í austurhluta Úkraínu í gær.

Harmleikurinn í Úkraínu

Flugvélin var af gerðinni Boeing 777 á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þegar hún hvarf af ratsjám. 298 týndu lífi.

Mesta hörmung í flugsögu Hollands

Forsætisráðherra Úkraínu fullyrðir að rússneskir hryðjuverkamenn hafi skotið farþegaþotu Malaysina flugfélagsins niður. Forsætisráðherra Hollands krefst ítarlegra alþjóðlegrar rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×