Innlent

1900 stelpur sparka í bolta í Kópavogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, kíkti í Kópavoginn í dag.
Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, kíkti í Kópavoginn í dag. Vísir/Pjetur
Yfir 1900 stelpur í 5., 6. og 7. flokki berjast við andstæðinga, rigningu og rok á Símamótinu í Kópavogi. Það er þó ekki að sjá enda bros á hverju andliti. Mótið hófst í gær en lýkur á sunnudag. Metþátttaka er í mótinu sem fagnar þrjátíu ára afmæli sínu um þessar mundir.

Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, leit við í Kópavoginum og tók myndirnar sem fylgja fréttinni.

Símamótið er langstærsta og elsta knattspyrnumótið fyrir stúlkur. „Það elur af sér framtíðarknattspyrnumenn og ég tel, svona í sögulegu samhengi, að þetta mót hafi rutt veginn fyrir kvennafótboltann," segir Einar Sigurðsson, mótsstjóri. Sprenging er í þátttöku en rúmlega 1900 stelpur í 274 liðum eru mætt á mótið. Við bætast þjálfarar liðsstjórar og fararstjórar sem verða hátt í fjögur hundruð. Þá starfa um 450 foreldrar við mótið.

„Svo margfaldast fjöldinn með foreldrum, systkinum, ömmum og öfum sem fylgjast með. Ég áætla því að ekki færri en tíu þúsund manns verði í Kópavogsdalnum á þessu tímamóta Símamóti," segir Einar. Hann telur mótið hafa gjörbreytt verkefnum fyrir kvennaboltann.

„Sem sést meðal annars á því að allar stúlkurnar sem spiluðu á Evrópumeistaramótinu í fyrra höfðu spilað á Símamótinu."

Einar bætir við að með árunum hafi keppendur mótsins yngst eftir því sem fleiri stúlkur hafi lagt stund á knattspyrnu. „Þetta mót hefur alltaf verið grasrótarstarf. Það skýrir vinsældir Símamótins."

Síminn hefur endurvekið farsímavef mótsins frá því í fyrra; m.simamotid.is. Á honum má fylgjast með öllum upplýsingum; úrslitum, keppnisvöllum, tímasetningum og skoða myndir af keppendum á símanum sínum.

Alls 7.800 nýttu farsímavefinn í fyrra samkvæmt tilkynningu frá Símanum, og vörðu að meðaltali sex mínútum inni á vefnum. Flettingarnar voru 108 þúsund, heimsóknirnar 30 þúsund. Vefurinn er eitt framlaga Símans til þessa stóra stúlknamóts í Kópavogi, en Síminn er bakhjarl mótsins.

„Farsímavefurinn fyrir Símamótið er sá fyrsti sem gerður hefur verið fyrir fótboltamót ungmenna hér á landi og þar sem móttökurnar voru svo góðar og notagildið augljóst kom ekki annað til greina en að endurtaka leikinn," segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem setur mótið formlega, fimmtudaginn 17. júlí klukkan 20 á Kópavogsvelli.

„Ég hlakka til að sjá þessar fjölmörgu framtíðarknattspyrnustúlkur landsins og er stoltur af því að Síminn styður við bak stúlknanna í ár eins og síðustu ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×