Enski boltinn

Portúgalanum sem United vill fá er frjálst að fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
William Carvalho á leið til Englands?
William Carvalho á leið til Englands? vísir/getty
Augusto Ignacio, framkvæmdastjóri portúgalska liðsins Sporting, segir að liðið sé opið fyrir því að selja miðjumanninn WilliamCarvalho í sumar, en Manchester United er sagt afar áhugasamt um að landa honum.

Fréttir í Portúgal herma að forráðamenn United hafa nú þegar átt í viðræðum við Sporting um kaup á þessum 22 ára gamla leikmanni.

„Þetta er ekki eins og í gamla daga þegar leikmenn yfirgáfu Sporting fyrir hvaða upphæð sem er,“ segir Ignacio í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Við höfum ekki áhyggjur af því að missa William Carvalho því við erum með aðra leikmenn sem eru tilbúnir að spila.“

„Riftunarverð hans tryggir Sporting mikinn pening þannig ég er ánægður með hvernig viðræðurnar ganga. Það er ekki auðvelt að standa í svona samningaviðræðum en við erum með forseta sem veit hvernig á að semja og veit hvað er best fyrir félagið,“ segir Augusto Ignacio.

William Silva de Carvalho, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist í Angóla 1992 en flutti með foreldrum sínum til Portúgal þegar hann var ungabarn.

Hann hefur leikið allan sinn feril með Sporting en tvívegis verið lánaður; til Fátima 2011 og Cercle Brugge 2012-2013.

Carvalho er varnarsinnaður miðjumaður og á að baki sex landsleiki fyrir Portúgal. Tveir þeirra voru á HM í Brasilíu, en þar kom hann inn á gegn Bandaríkjunum og spilaði svo allan leikinn gegn Gana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×