Erlent

Afríkuríki funda vegna ebólufaraldurs

Randver Kári Randversson skrifar
Læknar án landamæra berjast við ebólufaraldurinn í Gíneu.
Læknar án landamæra berjast við ebólufaraldurinn í Gíneu. Vísir/AFP
Heilbrigðisráðherrar 11 Afríkuríkja funda nú í Accra, höfuðborg Gana, vegna ebólufaraldursins sem nú geisar í Vestur-Afríku. BBC greinir frá þessu.

Frá því í febrúar hafa 763 smitast af veirunni og þar af hafa 468 látist. Flest tilfelli hafa komið upp í Gíneu, þar sem faraldurinn hófst. Síðan þá hefur hann breiðst út til Líberíu og Sierra Leone og  er nú orðinn stærsti ebólufaraldur í sögunni.

Fulltrúar þessara þriggja ríkja auk Fílabeinsstrandarinnar, Kongó, Gambíu, Gana, Gíneu Bissá, Malí, Senegal og Úganda munu sækja fundinn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að grípa verði til róttækra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar og tryggja að faraldurinn breiðist ekki til fleiri landa. Vonast er til að hægt verði að taka ákvarðanir um að samhæfa aðgerðir milli ríkjanna og efla viðbragðsáætlanir.

Hátt í 90% þeirra sem smitast af veirunni láta lífið, en engin lækning eða bóluefni er til við ebólu. Veiran smitast með líkamsvessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×