Erlent

Sektaður fyrir stöðustuld á Facebook-síðu fyrrverandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Visir/AFP
Stöðustuldur ungs Íra á Facebook-síðu fyrrverandi kærustu hans kostaði hann 300 þúsund krónur á dögunum eftir að dómstólar í Írlandi komust að þeirra niðurstöðu að stöðuuppfærsla sem hann skrifaði í hennar nafni hafi skaðað orðspor konunnar.

Talið er að þetta sé fyrsti dómur sinnar tegundar í heiminum og leiddar eru líkur að því að hann geti orðið fordæmisgefandi fyrir önnur sambærileg dómsmál á heimsvísu á komandi árum.

Málavextir voru þeir að hinn þrítugi Íri frá bænum Donegal fór til að ræða meint framhjáhald við fyrrverandi kærustu sína og á leið sinni út úr húsi hennar þreif hann síma konunnar með sér. Hann renndi yfir smáskilaboðin hennar sem staðfestu grun hans um að hún væri komin í samband með öðrum manni.

Í reiði sinni brá hann á það ráð að skrá sig in á Facebook-reikning konunnar og skrifa stöðuuppfærslu í hennar nafni. Þar kallaði hann konuna „gleðikonu“ og sagði að hún tæki við „öllum tilboðum sem bærust.“

Konan gerði lögreglunni viðvart sem var skömmu síðar komin á vettvang og handtók manninn. Írinn játaði sekt í málinu og viðurkenndi að hann hafi verið búinn að fá sér í aðra tána áður en hann lét til skarar skríða.

Írski lagabókstafurinn sem felldi manninn kveður á um sekt upp að allt að 20 milljónum króna og tíu ára fangelsisvist fyrir sambærilegar ærumeiðingar og getur Írinn því prísað sig sælan með að þurfa einungis að punga út fyrrgreindum 300 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×