Innlent

Hvalaskoðunarbátur strandaður á Skjálfanda

Samúel Karl Ólason skrifar
Báturinn hallar mikið.
Báturinn hallar mikið. Mynd/Einar Magnús Einarsson
Hvalaskoðunarbátur frá Húsavík hefur strandað við Lundey á Skjálfanda og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út. Í fyrstu var talið að leki væri kominn að bátunum, en það reyndist ekki rétt. Báturinn hallar þó mikið.

21 manneskja er um borð.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, segir að björgunarsveitarmenn hafi farið á tveimur hraðskreiðum harðbotna bátum frá öðru hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík. Voru slökkviliðsmenn með í för með dælur ef á þyrfti að halda.

Þá eru bátar frá öðrum hvalaskoðunarfyrirtækjum einnig á staðnum en komast ekki að bátunum. Allir björgunarbátar og skip á svæðinu hafa einnig verið kölluð út.

Uppfært 18:55

„Staðan er jákvæð,“ segir Guðmundur Salómonsson í Björgunarsveitinni Garðari á Húsavík.

Öllum hefur verið bjargað frá borði og eru komnir í land þar sem starfsmenn heilsugæslunnar biðu þeirra. Enginn virðist þó vera meiddur.

Um fimmtíu gráðu halli var kominn á bátinn síðast þegar Guðmundur vissi, en hann lenti á skeri og svo fjaraði undan honum.

Nú er verið að fara út með dælur, ef leki skyldi koma að bátnum. Þá er stefnt á að koma tógi á strandsstað svo hægt verði að draga bátinn á flot. Guðmundur segir þó spurningu hvort bíða þurfi eftir því að sjó flæði aftur undir bátinn.

Björgunarsveitarmenn, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og starfsmenn heilsugæslunnar koma að aðgerðum á svæðinu. Allt að 50 manns í heildina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×