Erlent

Sjúklingurinn fór út um neyðarútgang á flugi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þyrla á borpalli í Norðursjó
Þyrla á borpalli í Norðursjó Statoil/Harald Pettersen.
Maður á fertugsaldri lést þegar hann féll 600 metra úr sjúkraþyrlu sem var að flytja hann frá gasvinnslupalli í Norðursjó í gær. Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla kom sjúklingurinn sér sjálfur úr þyrlunni meðan hún var enn yfir hafi á leiðinni til Bergen í Noregi. Lögregla hefur málið til rannsóknar.

Það var í gærmorgun sem maðurinn veiktist um borð í Troll A-pallinum. Kallað var eftir þyrlu og átti hún skammt til lands þegar kall barst frá áhöfninni um að sjúklingnum hefði tekist að opna neyðarútgang og kasta sér út. Leit hófst þegar og fannst lík mannsins um klukkustund síðar í sjónum. Hann var sænskur ríkisborgari og starfsmaður hjá undirverktaka Statoil á pallinum.

Talsmaður þyrluflugfélagsins CHC segir þetta áfall. „Þetta er þannig harmleikur sem við höfum aldrei upplifað áður. Hugsun okkar er hjá fjölskyldu mannsins,“ sagði hann. Áhöfn þyrlunnar hefur fengið áfallahjálp en hún samanstóð af fimm manns; tveimur flugmönnum, björgunarmanni, spilmanni og heilbrigðisstarfsmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×