Innlent

Færa 700 eyðibýli til bókar

Svavar Hávarðsson skrifar
Ástand húsanna er mjög misjafnt, stundum er gaman að koma að þeim en annars staðar fylgir smá óhugur því að koma inn í eyðibýlin.
Ástand húsanna er mjög misjafnt, stundum er gaman að koma að þeim en annars staðar fylgir smá óhugur því að koma inn í eyðibýlin. Allar myndir/Eyðibýli á Íslandi
Fjórða sumarið í röð fer hópur ungmenna um landið og safnar upplýsingum um eyðibýli og önnur yfirgefin íbúðarhús í sveitum. Rannsóknaverkefnið nefnist Eyðibýli á Íslandi og markmið þess er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi þessara mannvirkja. Framtíðarsýnin er endurgerð valinna eyðibýla í samstarfi við eigendur þeirra og nýting í ferðaþjónustu.

Hringnum lokað

Rannsóknarverkefnið hófst árið 2011. Það sumar voru skrásett eyðibýli og yfirgefin hús á Suður- og Suðausturlandi. Sumarið eftir var Norðurland eystra og Vesturland undir og þriðja sumarið voru það Vestfirðirnir og Norðvesturland. Í sumar er hringnum lokað á Austurlandi og Suðvesturhorninu. Hvert sumar hafa átta til tíu manna hópur ungs fólks sinnt skráningu; margir koma að verkefninu aftur og aftur. Afraksturinn, eins og staðan er í dag, er sá að fyrir sumarið höfðu 556 hús verið færð til bókar, en gefin hafa verið út 5 bindi af veglegu riti sem ber nafn verkefnisins.

„Verkefnið á rætur sínar hjá nokkrum einstaklingum sem hafa áhuga á byggingarlist, menningu og þessum manngerða arfi sem leynist í sveitum landsins. Við fórum strax þá leið að fá háskólanemendur til liðs við okkur, og í sumar eru þau níu sem starfa við skráninguna,“ segir Gísli Sverrir Árnason, menningar- og stjórnsýsluráðgjafi og einn aðstandenda verkefnisins. Hann líklegt að í haust muni liggja fyrir upplýsingar um rúmlega 700 íbúðarhús. „Það er há tala, kannski, en samt skilgreinum við eyðibýli í okkar rannsókn frekar þröngt. Ef við hefðum ekki gert það þá væri verkefnið mun umfangsmeira.“

Skilgreiningin sem Gísli vísar til nær til yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins sem ekki hafa verið tekin til annarra nota. Þau verða að hafa fjóra uppistandandi útveggi, og þurfa ekki endilega að standa á eyðijörð, heldur geta þau staðið á jörð í búnytjum. Þessi hús geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum; verið merkar menningarminjar og mikilvægar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur líka verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil.



Nýting er næsta skref

Aðstandendur verkefnisins horfa langtum lengra en að ljúka skráningu eyðibýlanna og gefa afraksturinn út á bók. Það er einungis hugsað sem fyrsta skrefið í mun stærra samhengi hlutanna.

„Þó að í augnablikinu einbeiti hópurinn sér að því að ljúka rannsókninni, sem hefur kostað blóð, svita og tár, þá er það draumurinn að vinna að því með eigendum að gera nokkur hús upp, og í framhaldinu taka þau í notkun í ferðaþjónustu. Sem betur fer eru þegar býsna mörg dæmi um það að eigendur nokkurra húsa hafa gert upp hús sem við höfðum þegar skráð sem eyðibýli. Það er stórkostlegt, hvort sem það er að einhverju leyti að þakka þessu verkefni. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni. Hitt get ég sagt að umfjöllun um verkefnið hefur verið til góða, og þetta snýst fyrst og síðast um hugarfar. Kannski hafa heimsóknir krakkanna hverju sinni, eða útgáfa bókanna, leitt einhverjum fyrir sjónir að eyðibýlið þeirra eru verðmæti. Þetta hafi breytt hugarfari eigendanna til húsanna frá því að dæma þau ónýt yfir í að þarna liggja bæði huglæg og efnisleg verðmæti,“ segir Gísli.



Stundum dapurlegt 

Bergþóra Góa Kvaran er ein níumenninganna sem annast skráningu í sumar. Hópurinn er staddur á Austurlandi þar sem um 90 eyðibýli hafa verið skráð. Hún lýsir vinnunni með þeim hætti að keyrt er upp að hverju einasta bæjarstæði til að ganga úr skugga um að þar standi yfirgefin hús. Leitað er til staðkunnugra, en áður hefur verið safnað grunnupplýsingum um hvert svæði og hvar helst er að bera niður.



„Húsin eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Stundum er það bara ber steinramminn. Á dögunum sóttum við heim eyðibýli þar sem kviknað hafði í, en mikil saga var tengd jörðinni. Flugslys hafði orðið þar nálægt, tóftirnar eru úti um allt enda var um stórbýli að ræða þegar allt var þar í blóma. Það er mikil upplifun, enda fær maður tilfinningu fyrir því hvernig lífið var á þessum stað á árum áður, en núna ríkir kyrrðin yfir öllu,“ segir Bergþóra sem er á sínu þriðja sumri á eyðibýlaveiðum. „Svo eru það hús þar sem allt er til alls; það eru dæmi um það að línið sé ennþá í skápunum. Ég hef komið inn í hús þar sem búið var um rúmin, kaffibollar og smáhlutir stóðu frammi í eldhúsinu. Í öðru húsi stóðu diskar á dúkuðu borði, svona eins og eigendurnir hefðu skroppið frá rétt fyrir mat. Önnur hús eru nýkomin í eyði og munu sjálfsagt grotna niður á næstu árum,“ segir Bergþóra sem segir oft dapurlegt að koma inn í húsin, stundum er það gaman. „Stundum er það líka óhugnanlegt. Það verður að viðurkennast. Margar heimsóknir vekja hjá manni miklar tilfinningar þegar maður þekkir söguna. Eins og um fólk sem gat ekki lengur beðið eftir brú eða vegabótum og flosnuðu upp af góðri jörð þess vegna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×