Innlent

"Verðlag í hverju landi stendur í samhengi við launin“

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Vilhelm/Stefán
Ný könnun Eurostat sýnir að matvælaverð er lægra á  Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Matarverð á Íslandi er þó um 20% yfir meðaltali ESB-ríkjanna 28 og er Ísland sjöunda dýrasta landið í Evrópu með tilliti til matarverðs. Hagfræðingur segir að hafa verði í huga að á sama tíma hafi laun lækkað verulega í landinu. 

Ásgeir Jónsson hagfræðingur segir könnun Eurostat, sem birt var í júní, staðfesta að matvælaverð á Ísland sé að færast nær meðaltali ESB, þar sem það hafi lengi vel verið um 30% yfir meðaltalinu.

Hann segir hlutfallslega lækkun matvælaverðs miðað við önnur Evrópuríki skýrast af því að verð á innlendum vörum, svo sem landbúnaðarvörum hafi ekki hækkað í samræmi við þá gengislækkun sem varð í hruninu. Gengi krónunnar hafi fallið um 40-50% á árinu 2008 en verð á landbúnaðarvörum hafi ekki fylgt því eftir.

Ásgeir segir að hins vegar verði að hafa í huga að á sama tíma lækkuðu laun verulega í landinu, vegna verðhækkana á innfluttum vörum og hærri skatta. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi lækkað um 20-30% við hrunið.

„Verðlag í hverju landi stendur í samhengi við launin. Ef farið er til suðrænna landa, eins og Spánar, eða jafnvel Austur-Evrópu, þá er verðlag miklu ódýrara þar en hér. Það er líka af því að launin eru miklu lægri en hér. Þannig að ef þú ætlar að meta lífskostnað á Íslandi fyrir þá sem búa hérna þá verðurðu að meta launin með,“ segir Ásgeir.

„Munurinn á okkur núna og hinum skandinavísku löndum er að miklu leyti út af því að við erum bara með lægri laun, og lægri innlendan kostnað. Lágt verðlag í einhverju landi þarf ekki að tákna það að það sé mikill kaupmáttur í því. Þú verður að bera það saman við launin“ útskýrir Ásgeir.

Hann segir kaupmátt launa hafa minnkað töluvert, en það skýrist aðallega af verðhækkunum á innfluttum vörum. Bændur hafi ekki hækkað verð á afurðum sínum í takt við gengið.  „Venjulegt fólk er ekki með sama kaupmátt fyrir launin sín eins og það hafði fyrir 2008. Hins vegar kann að vera að mestur munurinn sé hvað varðar innfluttar vörur. Líklega er minnsti munurinn á vörum eins og lambakjöti,“ segir Ásgeir.

Hann segir könnunina í raun staðfesta að raungengi íslensku krónunnar sé mjög lágt í sögulegu samhengi. Raungengi er skilgreint sem hlutfallsleg þróun verðlags eða launakostnaðar á einingu í heimalandi annars vegar og viðskipalöndunum. Raungengi krónunnar segir til um hvað það kostar fyrir íslensk heimili að kaupa hluti á Íslandi miðað við í öðrum löndum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×