Erlent

Hyggur á sigurgöngu á Krímskaga

Atli Ísleifsson skrifar
Valeriy Heletey ávarpaði úkraínska þingið í dag.
Valeriy Heletey ávarpaði úkraínska þingið í dag. Vísir/AP
Nýr varnarmálaráðherra Úkraínu hefur heitið því að halda sigurgöngu á Krímskaga. Rússar innlimuðu skagann í mars síðastliðnum að lokinni umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem yfirgnæfandi meirihluti studdi sameiningu við Rússland. Valeriy Heletey sagðist öruggur um að sigurganga yrði haldin í borginni Sevastopol er hann ávarpaði úkraínska þingið fyrr í dag. Með orðunum uppskar ráðherrann mikið lófaklapp meðal þingmanna.

Sókn úkraínska stjórnarhersins gegn aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins hélt áfram í dag. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Francois Hollande Frakklandsforseti hafa hvatt Vladimir Pútín Rússlandsforseta til að beita áhrifum sínum til að þrýsta á aðskilnaðarsinna í héruðunum Donetsk og Luhansk. Pútín hefur lýst yfir þungum áhyggjum af auknum fjölda fallinna óbreyttra borgara og auknum flóttamannastraumi yfir landamærin til Rússlands.

Á vef BBC segir að leiðtogarnir þrír séu þó allir sammála um að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) eigi að gegna veigameira eftirlitshlutverki á átakasvæðunum í Austur-Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×