Innlent

Fleiri kvartanir til umboðsmanns Alþingis

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. MYND/GVA
Hinn 30. júní sl. höfðu umboðsmanni Alþingis alls borist 240 kvartanir á árinu og er það 10% fjölgun frá fyrra ári en þetta kemur fram í frétt á vef Umboðsmanns Alþingis.

Á sama tíma var búið að afgreiða 272 mál eða 56% fleiri mál heldur en afgreidd voru á sama tíma árið 2013.

Fram kemur í fréttinni að fleiri mál voru að jafnaði afgreidd mánaðarlega síðari hluta árs 2013 og meðaltal afgreiddra mála á mánuði er nú það sama og allt árið 2013 eða 45. Skráð mál á árinu 2013 voru 494 og afgreidd mál 543 en hliðstæðar tölur fyrir árið 2012 voru 536 og 502.

Embætti Umboðsmanns Alþingis hefur allt frá árinu 2011 þurft að takast á við mikla fjölgun nýrra kvartana en það ár fjölgaði málunum um 40% frá árinu 2010. Um 500 kvartanir hafa borist umboðsmanni árlega frá þeim tíma en á sama tíma hafa ekki orðið breytingar á fjölda starfsmanna.

„Umboðsmaður Alþingis hefur gert Alþingi grein fyrir því að úr þessum vanda í starfsemi umboðsmanns verði ekki bætt að óbreyttum fjölda kvartana nema sérstök fjárveiting fáist til að sinna þessum þætti. Hefur umboðsmaður sérstaklega vakið athygli á nauðsyn þess að embættinu verði gert kleift að sinna betur eftirliti með starfsemi þeirra stofnana þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja eða aðrir sem geta síður fært fram kvartanir og athugasemdir um aðbúnað og réttindi,“ segir í frétt á vef embættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×