Erlent

"Megum ekki láta börn drukkna“

Atli Ísleifsson skrifar
Á ári hverju halda fleiri þúsundir manna til Evrópu frá norðurströnd Afríku á ofhlöðnum bátum í leit að betra lífi.
Á ári hverju halda fleiri þúsundir manna til Evrópu frá norðurströnd Afríku á ofhlöðnum bátum í leit að betra lífi. Vísir/AFP
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir það ekki einungis vera á ábyrgð Ítalíu og annarra Miðjarðarhafslanda þegar menn, konur og börn frá öðrum heimshlutum drukkna í tilraun sinni að ná til Evrópu. Ítalía tók við sex mánaða formennsku í Ráðherraráði ESB á þriðjudaginn og hefur nýtt fyrstu dagana í að hvetja til aukins samstarfs aðildarríkjanna.

Renzi segir enga siðmenntaða þjóð geta setið hjá þegar börn eru sett um borð í hrörlega báta og send á haf út. „Við verðum að bjarga þessum börnum. Við getum ekki leyft bátum fullum af börnum sökkva einungis vegna þess að við vitum ekki hver ber ábyrgð á að bjarga bátnunum. Evrópa verður að leggja meira til,“ sagði Renzi eftir fund sinn með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar, í Róm í gær. Ítölsk stjórnvöld vilja að Frontex, landa­mæra­eft­ir­litisstofnun ESB, taki að sér aukna ábyrgð í þessum málum.

Á vef Politiken segir að Ítalía og fleiri Miðjarðarhafslönd hafi lengi talað fyrir aukinni þátttöku annarra ESB-ríkja og betri úrvinnslu og samvinnu þegar kemur að stöðugum straumi þess flóttafólks sem yfirgefur strendur Norður-Afríku áleiðis til Evrópu í leit að betra lífi. Bátarnir sem flytur fólkið eru nánast undantekningarlaust ofhlaðnir af fólki og drukknar mikill fjöldi fólks í Miðjarðarhafi á ári hverju vegna þessa.

Matteo Renzi hefur áhyggjur af þróuninni.Vísir/AFP
Styðja við líbísk stjórnvöld

Ítölsk yfirvöld tilkynntu fyrr í vikunni að metfjöldi flóttafólks hafi komið inn í landið það sem af er ári. Frá áramótum hafa 64 þúsund manns komið á bátum frá Norður-Afríku. Fyrr í dag kom ítalski flotinn 834 flóttamönnum frá Sýrlandi, Egyptalandi, Erítreu, Palestínu og Súdan til hafnar í Reggio Calabria í Suður-Ítalíu eftir að þeim var bjargað undir ströndum Möltu.



Renzi segir að 96 prósent allra flóttamanna sem koma til Ítalíu koma í bátum sem leggja úr höfn í Líbíu. Leggur hann till að ESB leggi aukinn þunga í að styðja við bakið á líbískum stjórnvöldum til að stemma stigu við þessari ógnvænlegu þróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×