Fótbolti

Herbragð van Gaal hefur verið reynt áður | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arjen Robben og Louis van Gaal fagna sigri í gærkvöldi.
Arjen Robben og Louis van Gaal fagna sigri í gærkvöldi. Vísir/Getty
Heimsbyggðin tók ofan fyrir Louis van Gaal, landsliðsþjálfara Hollands, eftir að lið hans hafði slegið út Kosta Ríka í átta liða úrslitum HM í fótbolta í gærkvöldi. Skipting á 120. mínútu vakti mikla athygli.

Van Gaal tók þá ákvörðun að skipta markverðinum Tim Krul inn á fyrir Jasper Cillessen. Mögulegar ástæður fyrir skiptingunni eru raktar hér en óhætt er að segja að herbragð van Gaal hafi gengið upp. Krul varði tvær vítaspyrnur og Holland er komið í undanúrslit.

Í þýska bikarnum fyrir rúmum tveimur árum mætti stórlið Borussia Dortmund b-deildarliði SpVgg Greuther Fürth í undanúrslitum. Allt stefndi í vítaspyrnukeppni þegar þjálfari heimaliðsins gerði skiptingu. Markvörðurinn Max Grün fór af velli fyrir varamarkvörðinn Jasmin Fejzic í hans stað. Fejzic var annálaður vítabani og stuðningsmennirnir spenntir.

Tvær mínútur voru eftir af framlengingunni þegar skiptingin fór fram. Aldrei kom hins vegar til vítakeppni eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Ilkay Gündogan skoraði sigurmark Dortmund með skoti sem hafði viðkomu í Fejzic eftir að boltinn small í stönginni. Af markverðinum hrökk boltinn í netið.

Leikmenn Dortmund fögnuðu sem óðir væru en leikmenn Fürth lágu eftir í grasinu og trúðu ekki sínum eigin augum. Robert Lewandowski skoraði svo þrennu í úrslitaleiknum gegn Bayern München þar sem þeir gulklæddu höfðu öruggan 5-2 sigur.


Tengdar fréttir

Varamaðurinn Krul hetja Hollands

Holland er komið í undanúrslit heimsmeistaramótsins eftir sigur á Kosta Ríka í vítaspyrnukeppni. Liðið mætir Argentínu á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×