Fótbolti

Matthäus: Guardiola haft áhrif á þýska liðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lothar Matthäus, fyrirliði vestur-Þjóðverja á HM í fótbolta 1990, segir PepGuardiola, þjálfara Bayern München, hafa haft mikil áhrif á það hvernig þýska landsliðið spilar í dag.

Guardiola hefur aðeins verið við stjórnvölinn hjá Bayern í eitt tímabil en hann tók við liðinu síðasta sumar og gerði það að tvöföldum meisturum í vor.

„Það er satt að Guardiola hefur haft áhrif á liðið. Það er mikið af leikmönnum Bayern í því og þeir koma með sinn stíl,“ segir Matthäus.

„Guardiola vann svo marga titla með Barcelona og það hafði sín áhrif. Hann tók hugmyndafræði sína með til Bayern og þar sem svo margir leikmenn þess eru í þýska landsliðinu sjást áhrifin þar.“

Landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi segir liðið ekki spila alveg jafnskemmtilegan fótbolta og undanfarin ár heldur sé liðið öllu skynsamara og varkárara í sínum leik.

„Það skiptir öllu máli að vinna HM. Við höfum eytt síðustu átta árum í að spila fallegan og tekknískan fótbolta sem allir hrifust af.“

„Nú hafa hlutirnir aðeins breyst og hluti af fegurðinni í boltanum er farin. Við einbeitum okkur meira að því að vinna núna. Vörnin er traustari og það er hún sem vinnur titla,“ segir Lothar Matthäus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×