Innlent

Óttast að fólk kynni sér aðstæður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leitaraðgerðum í Bleiksárgljúfri hefur nú verið formlega hætt, án árangurs.

Svanur Lárusson sem stjórnaði aðgerðunum var í viðtali við Ísland í bítið í morgun á Bylgjunni.

Hann sagði að þrátt fyrir að hið gríðastóra verkefni hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast hafði verið til hafi það þó gengið vel og að því hafi staðið margar samhentar hendur.

Svanur lýsti í viðtalinu þeim gífurlega krefjandi aðstæðum sem björgunarsveitarmenn þurftu að athafna sig í við leitina í og við fossinn í gljúfrinu. Leitarmönnum hafði tekist að dæla úr nægilega úr hylnum fyrir ofan fossinn svo mögulegt væri að síga niður í gljúfrið þangað sem þeir töldu að bergsyllu væri að finna.

Við nánari eftirgrennslan reyndist þar á ferðinni gangnamunni, um metri að breidd, sem ekki hafi tekist að kanna betur sökum þeirrar hættu sem því hefði fylgt. Vatnsflæðið sé um 1000 lítrar á sekúndu og því enginn hægðarleikur að senda menn og búnað í inn í hellinn.

Þeir hafi þó verið vel tækjum búnir og segir Svanur að þremur myndavélum hafi verið fórnað til verksins. Það sé einfaldlega ekkert sem haldi undan kröftum fossins.

Svanur segist óttast að áhugasamir taki að flykkjast í Bleiksárgljúfur til að kynna sér aðstæðurnar og vildi hann hvetja hlustendur til að láta ekki af því verða enda sé nú búið að loka gljúfrinu. Hann segir þó að hægt sé að kynna sér mjög áþekkar kringumstæður í Gluggahlíð sem finna megi steinsnar frá Bleiksárgljúfri. Þar liggi göngustígur að fossinum og getur fólk því kannað aðstæðurnar af meira öryggi en er að skipta við Bleiksárgljúfur.

Viðtalið í heild sinni má nálgast hér að ofan.


Tengdar fréttir

Leit í Bleiksárgljúfri í gær skilaði engum árangri

Leitarhópar fóru í gærkvöld um svæðið í kringum Bleiksárgljúfur til leitar að Ástu Stefánsdóttur sem ekkert hefur spurst til síðan um Hvítasunnuna. Leitin skilaði engum árangri og segir Sveinn Rúnarsson lögreglustjóri á Hvolsvelli að deginum í dag verði varið í undirbúning en um helgina stendur til að fara í gljúfrið með öflugri tól og tæki.

Leitað í Bleiksárgljúfri í dag

Reynt verður að minnka vatnsmagn fossins í Bleiksárgljúfri og verður hluti fossins stíflaður. Þá verður gljúfrið lýst upp og munu leitarmenn síga niður með gilbörmunum.

Bræður Pino komnir til Íslands

Pino Becerra Bolanos, sem lést í Bleiksárgljúfri, verður brennd hér á landi og askan flutt til Spánar í lok vikunnar.

Fótsporin ekki eftir Ástu

Rannsóknarlögreglumenn og fótsporasérfræðingar komust að því að spor eftir beran fót sem fundust í Fljótshlíð hafi ekki verið eftir íslensku konuna sem hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×