Innlent

Vandasamt að stífla rennslið fyrir frekari leit

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Rennsli er svo mikið í gljúfrinu að ekki er víst hvort hægt verður að stífla það fyrir leitina.
Rennsli er svo mikið í gljúfrinu að ekki er víst hvort hægt verður að stífla það fyrir leitina. vísir/vilhelm
Leit björgunarsveitarmanna að Ástu Stefánsdóttur bar engan árangur í fyrradag. Í gær var hefðbundið eftirlit á svæðinu við Bleiksárgljúfur en um helgina er vonast til að geti hafist ýtarlegri leit að Ástu þar sem vatnsflæðinu í gljúfrinu verður breytt með stíflum og dælum.

„Ég veit ekki hvort það hefst en við erum að vinna í því og viða að okkur viðeigandi tækjum og tólum,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, og bætir við að ekki sé víst að hægt verði að stífla rennslið því að það sé svo mikið en það komi í ljós á næstu dögum.

Ekkert hefur spurst til Ástu Stefánsdóttur síðan um Hvítasunnuna. Sambýliskona hennar, Pino Becerra Bolanos, fannst látin í Bleiksárgljúfri í síðustu viku. Bræður Bolanos, sem komu til landsins að sækja ösku hennar, héldu úr landi í gær eftir að hafa verið viðstaddir minningarathöfn um Bolanos í húsakynnum Háskóla Íslands. 

Uppfært: Sveinn Kristján segir nú klukkan tíu í morgun að ekki sé útlit fyrir að það takist að breyta streyminu í dag. Hefðbundið eftirlit á svæðinu verður áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×