Innlent

Ein allra hættulegasta leit síðustu tíu ára

Snærós Sindradóttir skrifar
 Mikinn mannafla þurfti til að koma rörunum fyrir en þau eru ekki tilbúin til að taka við ánni enn sem komið er.
Mikinn mannafla þurfti til að koma rörunum fyrir en þau eru ekki tilbúin til að taka við ánni enn sem komið er. Fréttablaðið/Guðbrandur Örn Arnarson
„Okkar vönustu menn muna ekki eftir aðgerð sem er jafnhættuleg og jafnflókin síðustu tíu ár,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson, sem stýrir leitinni að Ástu Stefánsdóttur sem hvarf í Fljótshlíð um hvítasunnuhelgina.

Búið er að koma fyrir rörum sem eiga að leiða ána úr Bleiksárgljúfri svo komast megi að ókönnuðum svæðum í gljúfrinu. Hver rörhluti er um 200 kíló að þyngd.

„Við erum búin að kafa hylinn við þann foss sem við beinum sjónum okkar að en hann hefur ekki verið leitaður þannig að við séum sátt við árangurinn. Fossinn fellur svo í um það bil tíu metra berggang eða spíral sem við höfum mikinn áhuga á að skoða nánar. Þaðan fer fossinn svo í tuttugu metra frjálsu falli,“ segir Guðbrandur.

Mikil áhætta felst í því að koma rörunum fyrir og segist Guðbrandur ekki vilja að neinn verði nálægt þegar vatninu verður hleypt á ef ske kynni að rörin liðist í sundur. Hann gerir ráð fyrir því að um átta tonn af vatni verði í röravirkinu í einu en vatni verður hleypt á þau á laugardag.

Á bilinu tíu til fimmtán manns hafa farið í skýrslutöku hjá lögreglu vegna hvarfs Ástu og unnustu hennar, Pino Becerra, sem fannst látin við upphaf leitar.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að vísbendingar bendi ekki til neins annars en að lík Ástu sé í gljúfrinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×