Enski boltinn

Van Gaal fer með United til Bandaríkjanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal er búinn að koma Hollandi í átta liða úrslitin á HM.
Louis van Gaal er búinn að koma Hollandi í átta liða úrslitin á HM. vísir/getty
Louis van Gaal, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, er búinn að lofa forráðamönnum félagsins að hann verði með liðinu í æfingaferðinni í Bandaríkjunum í næsta mánuði, allt frá fyrsta degi.

Van Gaal ætlar ekki að taka sér neitt sumarfrí, en æfingaferðin hefst 18. júlí. Vinni Holland lið Kostaríku í næsta leik á HM verður þjálfarinn fastur í Brasilíu til 13. júlí því lið sem komast í undanúrslit spila í framhaldinu úrslitaleik eða leikinn um þriðja sætið.

Ryan Giggs mun sjá um æfingar liðsins þar til Hollendingurinn mætir til starfa en Van Gaal segir það pottþétt að han verði með í flugvélinni til Los Angeles 18. júlí.

Leikmenn United sem ekki voru á HM eiga að mæta til æfinga á föstudaginn, samkvæmt frétt BBC, en fyrstu dagana verða einungis læknisskoðanir á dagskrá.

Manchester United spilar fimm leiki á Champions Cup í Bandaríkjunum. Liðið mætir LA Galaxy í Los Angeles, Roma í Denver, Inter í Washington, Real Madrid í Boston og úrslitaleikurinn verður svo spilaðir í Miami 4. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×