Innlent

Víða akstursbann á hálendinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Að fjallabaki.
Að fjallabaki. Mynd/Umhverfisstofnun
Spáð er stormi víða til fjalla og á hálendinu um og eftir miðjan daginn en á morgun kemur nokkuð djúp lægð úr suðvestri.

Reiknað er með snörpum hviðum um og yfir 35 m/s undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi frá því skömmu fyrir hádegi og fram yfir miðjan dag. Þá er búist við stórrigningu á morgun, sérstaklega á sunnanverðu landinu með tilheyrandi vatnavöxtum t.d. í Þórsmörk og Landmannalaugum.

Vegna jarðsigs á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát.

Víða er unnið að viðhaldi á vegum, ekki síst endurnýjun á slitlagi. Vegfarendur eru beðnir að sýna varúð og tillitsemi í slíkum aðstæðum, og virða merkingar.

Meðan frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Vegagerðin biðlar til almennings sem hyggja á fjallaferðir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×