Innlent

„Laugardalurinn er gimsteinn“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Búist er við að allt að 10 þúsund manns leggi leið sína í Laugardalinn í dag til að fylgjast með Secret Solstice tónleikahátíðinni sem nær hámarki í kvöld. Jakob Frímann Magnússon líkir Laugardalnum við gimstein til tónleikahalds hér á landi.

Það var svo sannarlega góð stemmning í Laugardalnum síðdegis í dag. Á sjötta þúsund tónleikagesta sótti hátíðina í gær og áætla skipuleggjendur að þeir verði níu til tíu þúsund í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem Secret Solstice hátíðin er haldin en virðist hitta beint í mark. Flestir bíða í ofvæni eftir ensku hljómsveitinni Massive Attack stíga á svið á ellefta tímanum í kvöld.

„Það eru mjög margir sem eru komnir fyrst og fremst til að sjá Massive Attack en það eru auðvitað 149 aðrir til að sjá,“ segir Jakob Frímann. „Það sem menn hafa orð á, sérstaklega þeir sem koma langt að, er hvað þessi staður sé dásamlegur. Ég held að þetta sé sannkallaður gimsteinn - paradís fyrir hvers kyns tónleikahald.“

Jakob segir að hátíðin hafi farið afar vel fram í gær og vonar að það sama verði upp á teningnum í kvöld. „Það eru engir pústrar eða illindi fólks í millum. Það er eiginlega ekki hægt að vera með illindi - veðrið fallegt, umhverfið dásamlegt, fólkið og tónlistin. Þetta er upplifun sem gefur ekki tilefni til neinnar óánægju.“

Nánar í myndbandinu hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×