Erlent

Um 100 manns fastir undir rústum á Indlandi

Randver Kári Randversson skrifar
Björgunarmenn leita í rústunum í Chennai.
Björgunarmenn leita í rústunum í Chennai. Vísir/AFP
Óttast er að um 100 manns séu fastir undir rústum eftir að 12 hæða hús hrundi í borginni Chennai í Suður-Indlandi í gærkvöld. Í það minnsta níu eru látnir. BBC greinir frá þessu.

Um 130 verkamenn voru að störfum í húsinu þegar það hrundi. 26 þeirra hefur verið bjargað, en björgunarmenn leita nú hinna. Ekki er ljóst hvers vegna húsið hrundi en lögregla rannsakar nú málið.

Fyrr í gærdag létust tíu manns, þar af fimm börn þegar fjögurra hæða hús hrundi í höfuðborginni Delhi.

Léleg byggingarefni og ófullnægjandi öryggis- og byggingastaðlar eru talin skýringin fyrir því að tilvik sem þessi eru ekki óalgeng í Indlandi. Í janúar létust 14 manns þegar hús, sem var í byggingu, hrundi í Goa-héraði í vesturhluta landsins. Þá létust í það minnsta 42 þegar fjögurra hæða hús hrundi í borginni Mumbai í september á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×