Innlent

Húsleit gerð á heimili föðurins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stúlkurnar tvær.
Stúlkurnar tvær. mynd/norska lögreglan
Vopnaðir lögreglumenn gerðu í kvöld húsleit á heimili föður stúlknanna tveggja sem rænt var í Noregi í dag. Grunur leikur á að faðir þeirra, Mansur Mahashev, standi að baki ráninu. Ekkert óeðlilegt fannst þó á heimili hans. Dagbladet greinir frá.

Samkvæmt norskum fjölmiðlum réðust þrír grímuklæddir menn inn í skólabílinn í Kongsvinger-fylki í suðausturhluta Noregs og höfðu á brott með sér stúlkurnar, sem eru sex og átta ára gamlar systur frá Téténíu, og óku á brott með þær í litlum sendiferðabíl af gerðinni Toyota.

Lögreglu hefur borist fjöldi ábendinga og hafa nokkrir verið yfirheyrðir, en lítið hefur verið gefið upp um málið.

Norska lögreglan hefur hafið umfangsmikla leit að stúlkunum en ekki liggur fyrir hvort ræningjarnir hafi farið með þær yfir landamærin til Svíþjóðar eða til Oslóar, sem er í 100 kílómetra fjarlægð frá Kongsvinger. Sænska lögreglan er einnig í viðbragðsstöðu vegna málsins.

Faðir þeirra var ákærður fyrir vanrækslu en málið hefur enn ekki farið fyrir dómstóla. Stúlkurnar hafa því búið hjá norskri fósturfjölskyldu um nokkurt skeið.

Stúlkurnar höfðu sótt grunnskólann í Kongsvinger síðan um áramótin, og að sögn Britt-Marie Paulsson, skólastjórans, höfðu stúlkurnar aðlagast vel og eignast marga vini. Hún segir engan hafa grunað að þær væru í hættu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×