Fótbolti

Balotelli tryggði Ítölum sigur

Claudio Marschisio skorar fyrir Ítalíu.
Claudio Marschisio skorar fyrir Ítalíu. Vísir/Getty
Ítalía vann England með tveimur mörkum gegn einu í öðrum leik dagsins í D-riðli heimsmeistaramótsins í Brasilíu.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og Liverpool-mennirnir Raheem Sterling og Jordan Henderson áttu báðir skot sem ógnuðu ítalska markinu.

Ítalir héldu boltanum betur og komust yfir á 35. mínútu þegar Claudio Marschisio skoraði með góðu skoti fyrir utan vítateig eftir vel útfærða hornspyrnu.

Það tók Englendinga aðeins tvær mínútur að jafna leikinn en þar var að verki Daniel Sturridge eftir fyrigjöf frá Wayne Rooney.

Ítalir voru svo nálægt því að komast yfir undir lok fyrri hálfleiks; fyrst þegar Phil Jagielka bjargaði skoti Marios Balotelli á línu og svo þegar Antonio Candreva skaut í stöngina.

Staðan var 1-1 í hálfleik, en Ítalir tóku forystuna á nýjan leik á 50. mínútu þegar Balotelli skallaði fyrirgjöf Candreva í netið.

Englendingar fengu góð færi til að jafna leikinn, en það besta fékk Rooney á 62. mínútu þegar hann átti skot framhjá ítalska markinu af stuttu færi.

Andrea Pirlo var nálægt því að bæta þriðja marki Ítala við í uppbótartíma þegar skot hans beint úr aukaspyrnu small í slá enska marksins.

Fleiri urðu mörkin ekki og Ítalir fögnuðu mikilvægum sigri. Þeir eru með þrjú stig í D-riðli, rétt eins og Kosta Ríka sem vann Úrúgvæ með þremur mörkum gegn einu fyrr í kvöld.

Ítalir fagna fyrsta marki leiksins.Vísir/Getty
Daniel Sturridge komst á blað.Vísir/Getty
Sterling og Darmian, tveir af bestu mönnum leiksins, eigast við.Vísir/Getty
Phil Jagielka bjargar á línu.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Óvæntur sigur Kosta Ríka

Kosta Ríka vann óvæntan 3-1 sigur á Úrúgvæ í fyrsta leik D-riðils á HM í Brasilíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×