Innlent

Árás í Selbrekku ætlað að valda sem mestum skaða

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Maður sem grunaður er um líkamsárás í Selbrekku síðastliðinn föstudag, verður í gæsluvarðhaldi og einangrun til 6. júní næstkomandi. Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um gæsluvarðhald.

Samkvæmt greinargerð Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins eru málsatvik þau að laust fyrir klukkan níu á föstudagsmorgun barst lögreglunni tilkynning um mann sem lá í blóði sínu við Selbrekku.

Maðurinn var með mikla áverka og aðallega í andliti, marga skurði, áverka á hnakka, brotnar tennur, rifna vör, bólgin augu og mögulega með blóð í öndunarvegi. Læknir á slysadeild mat áverkana svo að árásin hafi verið kröftug og eins og henni hafi verið ætlað að valda sem mestum skaða.

Sagt var frá málinu á Vísi á föstudaginn.

Tvö vitni sáu tvo menn sem þóttu grunsamlegir í háttum. Þeir hafi stanlaust verið að svipast um og líta niður götuna. Vitnin sáu ekki árásina sjálfa en komu að manni sem lá í blóði sínu og hringt á neyðarlínuna.

Lögreglan lýsti eftir frekari vitnum og fékk ábendingu frá íbúa sem hafði séð tvo menn sitja í bíl. Einhverju seinna voru mennirnir enn í bílnum svo íbúinn tók níður skráningarnúmer bílsins. Eigandi bílsins er maðurinn sem situr nú í gæsluvarðhaldi.

Þegar hann var handtekinn fundust föt heima hjá honum sem voru ötuð blóði. Hann vildi þó ekkert kannast við að hafa verið í Selbrekku á föstudagsmorguninn. Þegar sími hans var skoðaður kom í ljós að hann hafði verið í sambandi við mann sem hafði verið eftirlýstur í heimalandi sínu vegna manndrápsmáls.

Hann sagðist ekki muna eftir þessum samskiptum, en samkvæmt lögreglustjóra hljóðuðu skilaboðin svona: Við erum að koma. Batteríið á myndavélinni var tómt, erum að hlaða, komum síðan.

Lögreglan leitar nú að hinum manninum

Dóminn má sjá á vefsíðu Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×