Innlent

Reykjavík Síðdegis á kjörstað: Lítið talað um öryrkja, aldraða og fátæka

ÞORGEIR ÁSTVALDSSON OG KRISTÓFER HELGASON skrifar
Þorleifur við miðstöð flokksins í ASÍ-húsinu.
Þorleifur við miðstöð flokksins í ASÍ-húsinu. Mynd/Kristófer Helgason
„Mér líður bara mjög vel,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti Dögunar í Reykjavík. „Ég er mjög sáttur með mína og okkar vinnu. Þetta er mjög góður hópur sem hefur myndast í kringum þessa baráttu, hér eru miklir mannréttindasinnar.“

Flokkur hans Þorleifs berst sérstaklega fyrir málefnum þeirra sem minnst mega sín.

„Að mínu mati verður enginn hópur fyrir meiri mannréttindabrotum og utangarðsfólkið í Reykjavík,“ segir hann. „Það fær ekki ásættanlega heilbrigðisþjónustu, það fær ekki ásættanlega þjónustu varðandi húsnæði eða félagsmál almennt. Þannig mér hefur þótt mikilvægt að tala fyrir þennan hóp, það eru ekki margir sem gera það.“

Honum finnst fókusinn í kosningabaráttunni ekki alltaf hafa verið á réttu málunum.

„Fókusinn hefur náttúrulega mjög mikið verið á mosku og flugvellinum undanfarið og lítið talað um öryrkja, aldraða, fátæka. Það er svona rétt í gær á Rúv að menn fóru að ræða þetta vandamál um fátækt barna. Sem er náttúrulega höfuðvandamál sem þarf að leysa, að sextán prósent barna skuli vera í hættu vegna fátæktar foreldra þeirra. Það er að mínu mati stóra málið.“

Stöndum við á vegamótum hvað velferðarmál varðar?

„Við urðum náttúrulega fyrir miklu áfalli í hruninu og það var sjöhundruð prósent aukning á atvinnuleysi. Það kallar á það að núna er mikil fjölgun þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð. Og tekjur þessa fólks hafa lækkað mjög verulega. Það eru vegamótin, að sveitarfélagið þurfi núna að taka í auknum mæli á því að styðja við bakið á þessu fólki. Sem er ekki verið að gera. En mér sýnist stjórnmálamenn almennt ekki ætla að taka á þessu máli, því miður.“

Reykjavík síðdegis verður áfram á flakki um borgina í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×