Innlent

RS á kjörstað: „Nú er bara að bíða og sjá“

ÞORGEIR ÁSTVALDSSON OG KRISTÓFER HELGASON skrifar
Sóley ásamt kosningahamstrinum Högna.
Sóley ásamt kosningahamstrinum Högna. Mynd/Kristófer Helgason
„Hún er bara mjög góð,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, um stemninguna á kjördag. Reykjavík síðdegis náði tali af henni í kosningamiðstöð flokksins á Suðurgötu.

„Við erum búin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja Vinstri grænum góða kosningu og nú er bara að bíða og sjá.  Bara njóta þess að vera hér með félögunum og drekka kaffi, vera ekki á þönum út um allan bæ í fyrsta skipti í mjög langan tíma.“

Hún segir að málefni og áherslur Vinstri grænna eigi fullt erindi inn í borgarstjórn á næsta kjörtímabili.

„Að undanförnu höfum við fengið ástæðu til þess að hafa miklar áhyggjur af því að Vinstri græn detti út úr borgarstjórn. Það væri að mínu mati mjög slæmt. Vinstri græn hafa dregið vagninn í mjög mörgum mikilvægum málaflokkum.

Það erum við sem höfum fengið aðra flokka með í öllum aðgerðum varðandi umhverfismál. Við höfum staðið fast í lappirnar gegn einkavæðingu. Við höfum verið með brýnar tillögur um kvenfrelsismál, við höfum staðið með leikskólum og grunnskólum. Ef þessi sjónarmið verða ekki inn í borgarstjórn á næsta kjörtímabili, þá held ég í alvöru að það verði mjög slæmt fyrir stjórnmálin.“

Hún segist ekki hafa skýringu á því hvers vegna útlit er fyrir að flokkurinn nái ef til vill ekki inn manni í borgarstjórn.

„Það er nefnilega ekki mitt að dæma. Við höfum gert allt sem við gátum, nú verðum við bara að sjá hvað setur.

Mér finnst við Vinstri græn hafa lagt algjöra áherslu á grundvallaratriði.“

Reykjavík síðdegis verður áfram á flakki um borgina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×