Innlent

RS á kjörstað: „Þetta er nú bara gott fótboltaveður“

Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason skrifar
Dagur með fjölskyldu sinni á kjörstað fyrr í dag.
Dagur með fjölskyldu sinni á kjörstað fyrr í dag. Mynd/Kristófer Helgason
„Stemningin er bara góð,“ segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, þegar Reykjavík síðdegis náði tali af honum á kjörstað.

Veðrið er ekki sem allra best framan af á kjördegi en oddvitinn hefur litlar áhyggjur af því.

„Þetta er nú bara það sem við höfum í Árbænum kallað gott fótboltaveður,“ segir hann. „Þetta er bara svona léttur úði, í raun bara til að hressa mann upp.“

Hann segir kosningabaráttuna í ár hafa verið rólegri en venjulega yfir það heila.

„Þegar það er sátt um svona stóru meginatriðin, þá eru oft önnur atriði sem koma upp í umræðuna. Það er ekkert óeðlilegt, þá bara tökumst við á við það.“

Hann hvetur alla sem fyrr til að taka þátt í dag og kjósa í borgarstjórnarkosningunum.

„Kosningar eru mjög mikilvægt fyrirbæri og við getum verið ánægð að búa í þeim hluta heimsins sem iðkar lýðræði.“

Dagur, sem er annálaður vöfflubakari, minnir á kosningakaffi Samfylkingarinnar í Framheilinu í Safamýri og útilokar ekki að hann hendi sjálfur í eina vöfflu þar. Hann segir að lokum að þriggja ára dóttir hans sé orðin talsverð pabbastelpa eftir kosningabaráttuna en að elsta dóttir hans hafi um daginn tilkynnt honum að hún saknaði hans ekki.

„Hún hefði verið að taka strætó úr sundi og séð mig átta sinnum á leiðinni heim,“ segir Dagur léttur.

Reykjavík síðdegis verður áfram á flakki um borgina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×