Innlent

„Tel okkur ekki vera að gera neitt rangt“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Samfylkingin vinnur stórsigur í borgarstjórnarkosningunum í lok mánaðarins ef marka má nýja skoðanakönnun. Sjálfstæðisflokkurinn tapar hinsvegar tveimur mönnum ef fram heldur sem horfir.

Könnun félagsvísindastofnunnar var gerð fyrir Morgunblaðið, dagana 12. til 15.maí. Samkvæmt henni fær Samfylkingin 34 prósenta fylgi, Björt framtíð 22 prósent, Sjálfstæðisflokkur 21,5 prósent, Píratar níu prósent og Vinstri græn 6,3 prósent. Aðrir flokkar fá minna og ná ekki inn manni.

Þrátt fyrir fylgistap Bjartrar framtíðar stefnir í að núverandi meirihluti verði enn sterkari á næsta kjörtímabili í ljósi sterkrar stöðu Samfylkingarinnar. Sjálfstæðismönnum hefur hinsvegar ekki tekist að koma sinni kosningabaráttu á flug.



„Ég tel að við séum ekki að gera neitt rangt en við þurfum að herða okkur enn frekar og koma okkar mjög svo góðu stefnumálum á framfæri við borgarbúa,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Allt stefnir í stórsigur hjá Degi B. Eggertssyni og hans fólki í Samfylkingunni.
En er málið svo einfalt? Getur verið að kjósendum lítist ekki á stefnuskrá flokksins eða jafnvel oddvitann sjálfan sem kemur úr bæjarpólitíkinni á Ísafirði og var tiltölulega óþekktur á meðal borgarbúa?

„Það verða auðvitað borgarbúar endanlega að segja okkur í kosningunum. En nei, ég tel ekki svo vera. Ég held að borgarbúar hljóti að sjá kost í því að fá mann eins og mig með reynslu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×