Innlent

Segja fámennan hóp starfsmanna Icelandair bera ríka ábyrgð

Randver Kári Randversson skrifar
Um 90 ferðum hefur nú verið aflýst vegna aðgerða starfsmanna Icelandair.
Um 90 ferðum hefur nú verið aflýst vegna aðgerða starfsmanna Icelandair. Vísir/GVA
Samtök ferðaþjónustunnar segja fámennan hóp flugstjóra, flugmanna og flugliða Icelandair bera ríka ábyrgð á því að ferðaþjónustunni, stærstu útflutningsatvinnugrein landsins sé stefnt í voða.

Eins og fram hefur komið á Vísi í dag hefur Icelandair fellt niður tæplega 100 flug á undanförnum vikum, nú síðast í dag þegar hætt var við þrjú flug vestur um haf.

Í ályktun frá samtökunum kemur fram að þrátt fyrir að lög hafi verið sett á verkfall og flugstjóra og flugmanna Icelandair í síðustu viku hafi flugsamgöngur til og frá landinu ekki gengið sem skyldi.

„Þegar stærsta ferðamannasumar sögunnar er hafið er ólíðandi að stærstu atvinnugrein landins landsins sé stefnt í voða með þessum hætti. Þar ber fámennur hópur flugstjóra, flugmanna og flugliða Icelandair ríka ábyrgð.“

Nú hafi samtals 90 ferðum verið aflýst vegna verkfallsins, og yfirvinnubannsins, sem hafi haft áhrif á hátt í 12 þúsund farþega og ef fram heldur sem horfir geti aflýstum ferðum farið að skipta hundruðum með tilheyrandi tjóni fyrir ferðaþjónustuna.



Einnig krefjast Samtök ferðaþjónustunnar þess að flugliðar láti af aðgerðum sínum og hvetja samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í deilunni sem fyrst.

Ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar í heild má sjá hér.  



Ólíðandi að ferðaþjónustunni sé stefnt í voða

 

Þrátt fyrir að í síðustu viku hafi lög á verkfall flugstjóra og flugmanna Icelandair verið samþykkt á Alþingi, hafa flugsamgöngur til og frá landinu ekki gengið sem skyldi. Þegar stærsta ferðamannasumar sögunnar er hafið er ólíðandi að stærstu útflutningsatvinnugrein landsins og almannahagsmunum sé stefnt í voða með þeim hætti sem raun ber vitni. Þar ber fámennur hópur flugstjóra, flugmanna og flugliða Icelandair ríka ábyrgð.

 

Á síðasta ári var ferðaþjónustan stærsta útflutningsatvinnugrein landsins og námu gjaldeyristekjur hennar 274 milljörðum króna. Þá hlaupa beinar og óbeinar skatttekjur á tugum milljarða. Á degi hverjum er fjárhagslegt tjón fyrir þjóðarbúið því gífurlegt.



Undanfarna daga hafa fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu stigið fram og lýst yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum með stöðu mála. Frá því verkfallið og yfirvinnubannið hófst og þar til lögbannið var samþykkt var 68 flugferðum aflýst. Þá hefur enn fleiri flugferðum verið aflýst síðustu daga. Eins og staðan er í dag hefur samtals 90 ferðum verið aflýst sem haft hefur áhrif á hátt í 12 þúsund farþega. Ef fram heldur sem horfir kann aflýstum flugferðum að skipta hundruðum með tilheyrandi tjóni fyrir ferðaþjónustuna.

 

Samtök ferðaþjónustunnar krefjast þess að flugliðar láti af aðgerðum sínum. Hægt er að reikna tapaðar tekjur en ímynd og orðspor Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er ómetanlegt.

 

Sem fyrr hvetjum við samningsaðila til að leita allra leiða til að ná sáttum í deilunni sem fyrst. SAF skorar á báða aðila deilunnar, flugstarfsmenn og Icelandair, til að ná saman sem allra fyrst. Ábyrgð þeirra er mikil, enda eru samgöngur lífæð ferðaþjónustunnar. Óásættanlegt er að samgöngum sé stefnt í voða með þessum hætti.

 

Samþykkt á fjölmennum félagsfundi SAF, 21. maí 2014




Fleiri fréttir

Sjá meira


×