Innlent

Helgi Áss krefst tveggja milljóna í miskabætur fyrir ummæli útgerðarmanns

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Helgi Áss til vinstri og Jón Guðbjartsson til hægri.
Helgi Áss til vinstri og Jón Guðbjartsson til hægri.
Helgi Áss, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hefur stefnt Jóni Guðbjartssyni, útgerðarmanni á Ísafirði, fyrir meiðyrði. Bæjarins Besta greinir frá.

Jón lét eftirfarandi ummæli falla í viðtali sem birtist við hann á vef Bæjarins Besta í febrúar:

„Helgi Áss er á launum hjá LÍÚ sem borgar stöðu hans við háskólann. Við litlu karlarnir erum að berjast við LÍÚ veldið og þá er kallaður fram á sjónarsviðið sérlegur lögfræðingur veldisins til að skera úr um málin.“

Ummælin féllu í tengslum við umfjöllun Helga Áss um rækjuveiðar.

Helgi krefst þess að Jón greiði sér tvær milljónir króna í miskabætur því ummælin hafi verið ærumeiðandi og til þess fallin að valda honum álitshnekki. í stefnunni segir að ummælin séu til þess fallin að varpa rýrð á orðspor Helga Áss og minnka vonir hans um árangursríkan feril sem fræðimanns.

Í frétt Bæjarins Besta um málið kemur fram að Helgi Áss gegndi um tíma stöðu við Lagastofnun HÍ sem var fjármögnuð af LÍÚ en samstarfssamningi LÍÚ og Lagastofnunar lauk sumarið 2012. Þann tíma sem Helgi Áss gegndi stöðunni var hann starfsmaður Háskóla Íslands.

Málið verður tekið fyrir 4. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×